Þetta er sá fundur sem hefur verið boðaður: Eru bara fyrstu viðræður
Oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs segir menn hafa einblínt á vandamálin fremur en tækifærin við hugsanlegt allra samstarf í bæjarstjórn án formlegs meirihluta. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að hugmyndin sé ágæt en menn virðist ekki hafa hugsað hana til enda.„Við erum að fara að hittast eftir hádegið en þetta eru bara fyrstu viðræður," segir Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna.
Í gærkvöldi hittust oddvitar listanna fjögurra sem eiga bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og ræddu þar hugmynd Framsóknarmanna um að ekki yrði myndaður formlegur meirihluti heldur unnið eftir samkomulagi allra.
„Okkur fannst þetta ágætis hugmynd en menn virtust ekki alveg búnir að sjá fyrir sér hvernig hún virkaði í raun. Niðurstaðan var sú að hver ræddi þetta í sínu baklandi. Þetta var annars ljómandi fundur," segir hún.
Í morgun ákváðu fulltrúar Á-lista, Héraðslista og Sjálfstæðisflokks að funda um myndun meirihluta. Þar með virðist hugmyndin um meirihlutalausa bæjarstjórn vera út af borðinu. „Hún hefur verið sett til hliðar í bili. Staðan er að minnsta kosti sú að við þrjú ætlum að hittast."
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarmanna, segir tíðindin af viðræðum flokkanna þriggja hafa komið sér á óvart. „Ég hef heyrt að þau séu að fara að tala saman. Það kemur mér aðeins á óvart í ljósi þess að það var ekki gefið upp á fundinum í gær að menn hugsuðu sér að fara í þessa átt."
Hann segir að í gærkvöldi hafi verið farið yfir hugmyndina um samstarf allra og kostum hennar og göllum verið velt upp. „Það var frekar þungt hljóð í mönnum gagnvart því að þetta væri raunhæft. Menn virtust frekar einblína á vandamálin fremur en tækifærin. Hugur manna virðist ekki standa í þessa átt"
Þrátt fyrir viðræður annarra er hann ekki á að Framsóknarflokkurinn sé kominn út í horn. „Í augnablikinu eru allir kostir opnir. Við erum með okkar bæjarfulltrúa og okkar stefnuskrá og tilbúin að ræða málin enda mikilvægt að koma á góðri skipan.
Það mega allir tala saman. Þetta er sá fundur sem boðaður hefur verið og við bíðum róleg á meðan."