Húsvík og Þorlákshöfn sækjast ekki eftir Norrænu

norronaEkki eru uppi áform um siglingar Norrænu til Húsavíkur eða Þorlákshafnar. Framkvæmdastjóri Smyril-Line staðfestir að ekki sé til skoðunar að sigla til Húsavíkur.

„Þetta mál hefur ekki komið til umræðu hjá okkur né fyrirspurning þar af lútandi og því ekki um neitt mál að ræða sem ég eða aðrir geti tjáð sig um," segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Norðurþings.

Sögusagnir hafa verið á kreiki síðustu vikur um að forsvarsmenn Norrænu hafi skoðað Húsavík sem hugsanlegan áfangastað ferjunnar. Þeir hafa sem kunnugt er rætt við Fjarðabyggð um möguleikann á að fara með ferjuna þangað en forsvarsmenn hafa ekki heyrt frá Smyril-Line lengi samkvæmt heimildum Austurfréttar.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar sagðist Bergur Elías vona það persónulega að ferjan verði áfram á Seyðisfirði „um ókomna tíð enda fallegur staður með góðu fólki sem svo sannarlega þarf á þeim störfum að halda sem ferjunni fylgja."

Rúni Poulsen, framkvæmdastjóri Smyril-Line, staðfest einnig að félagið hefði „engin áform um að flytjast til Húsavíkur."

Þá birtist nýverið frétt í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá uppbyggingu hafnarmannvirkja í Þorlákshöfn og að stefnt væri að reglulegum ferjusiglinum til og frá Evrópu með vörur og fólk. Þar á bæ sækjast menn þó ekki eftir Norrænu.

„Sú hugmyndafræði sem hafnarstjóri ræðir um í viðtalinu í Morgunblaðinu á ekki við um siglingar Norrænu og ég get upplýst það að við höfum ekki verið í neinum samskiptum við Smyril-Line," segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar