Gengið frá myndun meirihluta á Vopnafirði: Listarnir skipta með sér oddvitaembættinu

eyjolfur sigurdsson vopnaBetra Sigtún og K-listi félagshyggju á Vopnafirði skrifuðu í gær undir samkomulag um meirihlutasamstarf í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps næstu fjögur árin. K-listi byrjar með oddvitaembættið sem skiptist á milli framboðanna.

„Það bar aldrei neitt mikið á milli okkar í málefnum, við vorum tiltölulega sammála. Þetta snýst aðallega um að hafa samninginn þegar á líður kjörtímabilið," segir Stefán Grímur Rafnsson, oddviti Betra Sigtúns.

Oddvitaembættið árlega á milli listanna þannig að K-listinn byrjar með það en Ð-listinn fær það að ári og svo framvegis. Væntanlega verður Eyjólfur Sigurðsson oddviti fyrsta árið en Stefán Grímur taki síðan við.

Það verður staðfest á fyrsta fundi nýrrar hreppsnefndar sem stefnt er að því að halda seinni part næstu viku eða þar næstu. Þar er einnig von á að verði staðfest ný nefndaskipan.

„Nefndirnar eru margar og fáir fundir haldnar í sumum. Við teljum að sameina megi þær að einhverju leyti og ég veit að Framsóknarmenn eru sammála okkur um eitthvað af þeim," segir Stefán Grímur.

K-listi og Betra Sigtún fengu tvo menn hvort í sveitarstjórnarkosningunum en Framsóknarflokkurinn verður í minnihluta með þrjá menn.

Til stendur að auglýsa embætti sveitarstjóra og vinna með ráðningarstofu að því að finna hæfasta kandídatinn í það verk. Þorsteinn Steinsson hefur gefið það til kynna að hann muni hætta eftir sextán ára starf. Ráðningarsamningur við hann rennur út um helgina en Stefán Grímur segir að hann sé tilbúinn að vinna eitthvað áfram á meðan ráðningarferlinu standi.

Eyjólfur Sigurðsson, fyrsti maður á lista K-lista, verður væntanlega næsti oddviti Vopnafjarðarhrepps. Mynd: K-listi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar