Sami meirihluti áfram á Seyðisfirði: Fresta þurfti fyrsta bæjarstjórnarfundinum
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gengu fyrir viku frá samkomulagi í áframhaldandi meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Seyðisfjarðar. Til stóð að halda fyrsta bæjarstjórnarfundinn síðasta föstudag en honum þurfti að fresta þar sem bæjarstjórnin má ekki taka við strax.Fundarboð var sent út miðvikudaginn 4. júní en hann átti að halda föstudaginn sjötta. „Þetta var fullsnemmt miðað við sveitarstjórnarlög.
Við ætluðum að reyna að ná fyrsta fundi áður en menn færu í sumarleyfi en ný bæjarstjórn má ekki taka við fyrr en 15. júní," segir Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Sjálfstæðismanna. Stefnt er að því að halda fundinn um miðja næstu viku í staðinn.
Hún verður í því embætti en Vilhjálmur Jónsson, oddviti Framsóknarmanna, bæjarstjóri og Margrét Guðjónsdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður bæjarráðs. Embættin eru því óbreytt en Arnbjörg segir að á miðju kjörtímabili verði staðan metin og farið yfir hvort ástæða sé til að breyta embættaskipan.
Jarðgöng undir Fjarðarheiði eru stærsta atriðið í málefnasamningnum, að sögn Arnbjargar. „Við stefnum á að koma þeim inn á samgönguáætlun og rannsóknir klárist þannig að hægt verði að hefjast handa árið 2016"
Þá er lögð áhersla á að viðhalda stöðu ferjuhafnarinnar á Seyðisfirði, stuðningi við skóla og menningarlíf, atvinnumál og viðhalda árangri í fjármálum sem náðist eftir endurskipulagningu á kjörtímabilinu.
Þá verður íþrótta- og tómstundanefnd breytt í velferðarnefnd. „Velferðarmálin voru áberandi í kosningabaráttunni og nefndin á að taka á þeim í stóru samhengi," segir Arnbjörg en málefni eldri borgara verða færð undir nefndina og „tekin fastari tökum."