Meirihlutaviðræður halda áfram á Fljótsdalshéraði
Fulltrúar Á-lista, Héraðslista og Sjálfstæðisflokks hittast í fjórða sinn í dag á fundi um myndun hugsanlegs meirihluta í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.„Þetta hafa verið ágætir fundir. Við ætlum að halda áfram í dag og erum að vinna okkur í gegnum málaflokkana," segir Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks.
Þriðji fundur listanna var í gærkvöldi. Nýjar sveitarstjórnir taka við 15. júní sem er á sunnudaginn. Anna segir menn hafa þá dagsetningu í huga en aðalatriðið sé að vanda vinnuna.
Eftir þann dag er tveggja vikna frestur til að halda fyrsta fund nýrrar sveitarstjórnar en engin sérstök tímamörk eru um myndun meirihluta eða að meirihluti sé yfir höfuð til.
Anna segir ekkert byrjað að ræða nefndaskipan en á þeim strönduðu viðræður Framsóknarflokks og Á-lista í byrjun vikunnar.
„Við erum að græja málefnin til að kanna hvort þetta gangi."