Meirihlutasamkomulag nánast í höfn á Fljótsdalshéraði: Björn áfram bæjarstjóri
Tilkynnt verður um nýjan meirihluta Á-lista, Héraðslista og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á morgun. Björn Ingimarsson verður áfram bæjarstjóri.„Við munum senda frá okkur fréttatilkynningu á morgun en viðræðunum er að mestu lokið," staðfesti Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista í samtali við Austurfrétt í kvöld.
Hann verður áfram formaður bæjarráðs en Héraðslisti og Sjálfstæðisflokkur skipta með sér embætti forseta bæjarstjórnar og skipt verður á miðju kjörtímabili. Á móti fær sá listi sem ekki á forsetann sæti í bæjarráði en forsetin verður þar áheyrnarfulltrúi. Ekki náðist að ganga frá því í dag hvor listinn byrjar með embættið.
Gunnar sagðist ekki vera tilbúinn að fara í málefnasamning framboðanna þriggja núna en hann verður kynntur síðar í vikunni eða á fyrsta fundi bæjarstjórnar.
Hins vegar er búið að raða því hvaða listi fer með formennsku í hverri nefnd. Breytingar verða á nefndum, sumar sameinaðar en annars staðar búnar til undirnefndir.
Á bakvið nýja meirihlutann eru sex af níu bæjarfulltrúum sem þýðir að jafnt er á milli fjórða manns meirihlutans og annars manns minnihluta Framsóknarmanna í þeim nefndum sem fimm fulltrúar sitja í.
Því varð annað hvort að semja um skiptinguna eða varpa hlutkesti um síðasta sætið og segir Gunnar að Framsóknarmenn hafi valið seinni kostinn. Niðurstaðan varð sú að Framsóknarmenn fá tvo menn í einni nefnd af fjórum en meirihlutinn hefur fjóra menn í þremur.
Á fundi með oddvitum framboðanna fjögurra var gengið frá endurráðningu Björns Ingimarssonar sem bæjarstjóra og verður samkomulag þess efnis undirritað á morgun.