Austurbrú í fjárþröng: Óbreyttur rekstur ekki kostur
Rúmlega tuttugu milljóna króna tap varð á rekstri Austurbrúar á síðasta ári. Endurskoðandi stofnunarinnar telur að með óbreyttum rekstri geti hún ekki staðið við skuldbindingar sínar í ár. Aðgerðir eru þegar hafnar til að rétta við fjárhaginn.Þessar upplýsingar er að finna í ársskýrslu, ársreikningi, nýjustu fundargerðum stjórnar Austurbrúar og fundargerð aðalfundar sem haldinn var í síðasta mánuði. Þar var töluvert tekist á um fjárhagsstöðu stofnunarinnar.
Endurskoðandi vekur sérstaka athygli á fjárhagsstöðunni í ársreikningi. Tapið á síðasta árið nam 21,1 milljón króna og eigið fé neikvætt um 31,1 milljón. Heildarskuldir í lok árs 2013 voru 93,9 milljónir og veltufé frá rekstri neikvætt um 17,1 milljónir. Afkoman var neikvæð um rúmar níu milljónir árið 2012.
Greiðsluhalli í árslok 2013 var tæpar átta milljónir og bætast fjárfestingar upp á rúmar tíu milljónir króna, svo sem skrifstofubúnaður og bifreið, við þann halla.
Þarf utanaðkomandi fjármagn
Í fundargerð stjórnar í aðdraganda aðalfundar segir að það sé mat endurskoðandans, Magnúsar Jónssonar hjá KPMG, að „með óbreyttum rekstri muni Austurbrú komast í fjárþröng 2014, þannig að stofnunin geti ekki staðið skil á skuldbindingum sínum." Hann bendir á að „nauðsynlegt sé að taka punktstöðu nú og gera ráðstafanir varðandi reksturinn."
Í fundargerð aðalfundar kemur fram að endurskoðandinn telji stofnunina „þó rekstrarhæfa. Rekstrarkostnaður hefur aukist og eignir minnkað. Gert er ráð fyrir að greiða þurfi 87 milljónir á árinu, á móti á stofnunin ríflega 40 milljónir." Hann telur utanaðkomandi fjármagn nauðsynlegt þannig að stofnunin „nái endum saman"
Stjórnin bókar að rætt hafi verið um töluverðan einskiptiskostnað sem hafi verið vegna stofnunarinnar árið 2013 sem ekki yrði aftur. Í skýrslu stjórnar eru sameiginlegt símkerfi, tölvubúnaður og samræmt útlit talin upp dæmi um þennan kostnað.
Tók við skuldum forveranna
Fundarmenn á aðalfundinum gera töluverðar athugasemdir við niðurstöðuna. Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, benti á sex milljónir í bifreiðakostnað og að stefnumótun hefði staðið í tvö ár. Stjórnunarkostnaður virtist aukast en fjármagnið nýttist ekki þeim Austurbrú ætti að þjóna.
Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, sagði rekstrarhallann „stinga í augu" sem og 87 milljóna skammtímaskuldir, þótt honum hefði kunnugt „um vaxtarverki stofnunarinnar."
Sverrir Mar Albertsson, stjórnarmaður Austurbrúar og framkvæmdastjóri AFLs, rifjaði upp að flestar stofnanirnar sem runnið hefðu inn í þá nýju hefðu komið með skuldir með sér. Áætlanir hefðu gert ráð fyrir minni halla og því ylli niðurstaðan „nokkrum vonbrigðum."
Ekki í stöðunni að gera ekki neitt
Valdimar O. Hermannsson, formaður stjórnar Austurbrúar, sagði stjórnina „taka stöðuna alvarlega" og því væru lagðar fram breytingatillögur. „Það er ekki í stöðunni að gera ekki neitt." Ákvörðun um kaup á bifreið fyrir framkvæmdastjóra upp á 4,9 milljónir króna hefðu verið tekin „að vel yfirlögðu ráði."
Hann sagði að menn hefðu gert miklar væntingar til stofnunarinnar við stofnun hennar. Sumt hefði gengið eftir en annað ekki og því væri tími nú til að fara yfir málin. Þá yrði að bæta upplýsingaflæði frá stofnuninni verulega.
Bókað er eftir starfandi framkvæmdastjóra, Jónu Árnýju Þórðardóttur, að fara verði í „algjöra endurskipulagningu" á fjárhag Austurbrúar.
Í fundargerð stjórnar er það bókað að stjórn verði upplýst „örar" um fjárhagsstöðu. Þar segir einnig að endurskoðendur hafi komið á framfæri við stjórnendur athugasemdum um innra eftirlit og fjárhagskerfi sem snúi „einkum að því að reikningar hafa verið bókaðir og greiddir án þess að hafa verið samþykktir með formlegum hætti."
Þá er gert ráð fyrir að starfsemi Austurbrúar á Egilsstöðum verði færð öll í Vonarland þar sem framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu og samtengingu húsa. Þar með verður eign stofnunarinnar í Miðvangi 2-4, þar sem hluti starfseminnar hefur verið, seld.
Stjórn og starfsháttanefnd, með aðkomu starfsmanna, munu á næstu mánuðum meta hvernig starfsemi Austurbrúar hefur gengið, endurskoða stjórnskipulag stofnunarinnar eftir þörfum og gera tillögur um æskilegar breytingar. Þær verða lagðar fyrir á framhaldsaðalfundi í haust.