Fangelsisdómurinn yfir Friðriki Brynjari staðfestur: Frásögn hans stenst ekki blóðferla á vettvangi
Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms Austurlands um sextán ára fangelsisdóm yfir Friðriki Brynjari Friðrikssyni fyrir að hafa myrt Karl Jónsson á Egilsstöðum í maí í fyrra. Dómkvaddir matsmenn skiluðu nýrri greinargerð um blóðferlana í íbúð Karls en Hæstiréttur telur hana ekki styðja fullyrðingar Friðriks um sakleysi hans.Atvikið átti sér stað aðfaranótt 7. maí í fyrra í íbúð Karls að Blómvangi 2 á Egilsstöðum. Árás Friðriks telst hafa verið „ofsafengin og hrottaleg og jafnframt svo skyndileg að litlum sem engum vörnum var við komið."
Friðrik Brynjar var töluvert ölvaður og hafði meðal annars setið að drykkju með Karli í íbúðinni. Friðrik Brynjar hringdi sjálfur í Neyðarlínuna um nóttina og lýsti því þá að hann teldi sig hafa drepið mann.
Friðrik Brynjar hélt fram sakleysi sínu, meðal annars á þeim forsendum að hann myndi ekki eftir árásinni. Hann sagðist hafa farið út úr íbúðinni eftir að hafa reiðst Karli og slegið hann en snúið aftur og komið þá að honum liggjandi. Framburður Friðriks Brynjars var ekki stöðugur um hvort hann hefði dregið Karl út á svalirnar eða hreyft við honum við dyragættina.
Friðrik Brynjar óskaði eftir dómkvöddum matsmönnum til að yfirfara blóðferlarannsóknir og voru kvaddir til sérfræðingar, annar íslenskur en hinn erlendur.
Í dómi Hæstaréttar segir að niðurstaða þeirra sé „að miklu leyti í samræmi við framburð" Friðriks um hvernig þeir hafi setið við drykkju og hann síðan dregið andvana Karl frá sófanum í stofunni og út á svalirnar þar sem hann fannst.
Yfir níutíu stungur voru alls á líki Karls og töldu sérfræðingar lögreglu að meirihluti þeirra hefði verið veittur á svölunum. Matsmennirnir voru því ekki sammála og töldu engar stungur hafa átt sér stað þar.
Athygli hefur vakið hversu lítið blóð var í stofunni eða á fötum Friðriks Brynjars miðað við hversu ofsafengin árásin var. Matsmennirnir segja mögulegt að sá sem framdi verknaðinn hafi fengið „lítið eða jafnvel ekkert" blóð á sig þegar hún var framin.
Engir blóðferlar hafi fundist á munum Friðriks Brynjars sem gefi til kynna að hann hafi framkvæmt stunguárásina. „Samt sem áður, útilokar ekki skortur á slíkum ferlum, þann möguleika að hann hefði getað valdið stungusárunum," segir í matsgerðinni.
Í dóminum segir að matsmennirnir telji þá fullyrðingu Friðriks Brynjars að hann hafi komið að Karli látnum í stofunni ekki standast miðað við blóðferla á vettvangi.
Karl hafi verið stunginn þar sem hann lá á gólfinu við sófann og það gerst „í einni svipann." Ummerkin gefi það til kynna að hann hafi verið dreginn burtu fljótlega eftir að hann hlaut áverkana.
Mat Hæstaréttar er því að sú atburðarás sem rakin sé í dómi héraðsdóms standist skoðun dómkvöddu matsmannanna, að undanskildu því að flestir áverkanna voru veittir í stofunni en ekki á svölunum.
Dómurinn minnir á að frásögn Friðriks Brynjars um þegar hann kom aftur inn í íbúðina sé „óljós" og hafi tekið „margvíslegum breytingum."
Hæstiréttur staðfesti því sextán ára fangelsisdóminn og dæmdi Friðrik Brynjar einnig til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, þar með talið fyrir vinnu matsmannanna, upp á rúmar fjórar milljónir króna.