Ekki beðið með verðhækkanir til að sleppa við svartan lista ASÍ
Landsvirkjun segist ekki hafa beðið með hækkanir á gjaldskrá til að forðast að lenda á svörtum lista Alþýðusambands Íslands. Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segist „ekki par hrifinn" af nýlegum hækkunum á heildsöluverði raforku frá fyrirtækinu.„Ég geri ráð fyrir að þessari hækkun, ásamt fleirum, hafi verið frestað í ljósi þess að menn vildu ekki lenda á einhverjum svörtum lista hjá Alþýðusambandinu. Svo kemur hún á vordögum þar sem menn eru farnir að huga að sumarfríum og eru ekki mikið að pæla í svona hlutum," sagði Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.
Til umræðu var tilkynning Landsvirkjunar um 2,3% hækkun á heildsöluverði raforku sem meðal annars hefur áhrif á viðskiptavini Rafveitu Reyðarfjarðar.
Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar hafnar því að um frestun á hækkunum sé að ræða.
„Landsvirkjun er með nokkurn fjölda rafmagnssamninga við viðskiptavini sína. Sumir þessara samninga eru með ákvæðum sem tryggja Landsvirkjun rétt til reglulegra verðhækkana til samræmis við verðbólgu enda hækka skuldbindingar fyrirtækisins, útistandandi skuldir og rekstrarkostnaður að jafnaði í takt við verðlag.
Um síðustu áramót ákvað Landsvirkjun að nýta sér ekki að fullu rétt til slíkra verðhækkana og mun það hafa áhrif á fyrirtækið til framtíðar því skuldbindingar þess lækkuðu ekki á móti að sama skapi. Nú í sumar eru ákvæði í samningum um verðhækkanir til samræmis við verðbólgu undanfarinna mánaða og hyggst fyrirtækið nýta sér þau til þess að þrengja ekki enn frekar að rekstri og afkomu."
Hann segir að ákvörðunin frá því um áramótin um að hækka ekki þá til samræmis við verðbólgu sé „óafturkræf."
Jens Garðar fór þess á leit við varaformann stjórnar Landsvirkjunar, Jón Björn Hákonarson sem jafnframt er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, að koma því á framværi að í Fjarðabyggð væri menn „ekki par hrifnir af þessum hækkunum."
Jón Björn tók ekki til máls við umræður um hækkanirnar í bæjarstjórn.
Alþýðusambandið hélt um síðustu áramót lista yfir fyrirtæki sem hækkuðu verðskrár sínar en markmið átaksins var að stemma stigu við verðbólgu.