Gerði myndband til að benda á seinagang í framkvæmdum: Verður malbikað um leið og hægt er
Myndband sem íbúi í Neskaupstað gerði til að vekja athygli á seinagangi í gatnaframkvæmdum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar hefur vakið mikla athygli í bænum. Bæjarstjórinn segir að framkvæmdunum verði lokið eins fljótt og hægt er.Ríflega 700 manns hafa horft á myndband Hlyns Sveinssonar af Blómstursvöllum á YouTube en það fór á netið eftir kvöldmat í gær.
Í myndbandinu er flogið með smáþyrlu yfir um 100 metra kafla í götunni þar sem unnið er við jarðvegsskipti og hann því ómalbikaður. Í því er fullyrt að ekki standi til að malbika yfir hann fyrr en á næsta ári.
„Ég er uppalinn á Blómsturvöllunum og hitti einn íbúanna í gær sem hafði þetta eftir verkstjóra og mannvirkjastjóra hjá bænum, að ekki væri til peningar til að malbika fyrr," segir Hlynur.
Hann segist því hafa farið með þyrluna á staðinn. „Þetta var tækifæri til að nota áhugasviðið í svona myndbandagerð. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð enda geta samfélagsmiðlarnir verið mjög öflugt tæki."
Hlynur segir íbúa við götuna ekki hafa gert sér grein fyrir ástandinu. „Þeir biðu bara eftir að það yrði malbikað."
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hafnar því að fjármagnið skorti eða að bíða þurfi fram á næsta ár eftir að framkvæmdum ljúki.
„Það verður malbikað um leið og hægt er, hvort sem það verður nú um mánaðarmótin eða síðar. Efnið þarf að lagast til og þjappast fyrst og það er beðið eftir því."
Hann segir að á meðan verði reynt að takmarka þau óþægindi sem íbúar við malarkaflann verða fyrir. „Það er alltaf þannig að þegar verið er að laga til og bæta skapast óþægindi á meðan. Við munum skoða þau og vökva eftir því sem ástæða þykir til."