Ellefu mínútur frá útkalli þar til slökkviliðið var komið inn

kauptun vpfj bruni 14072014 ob webEllefu mínútur liðu frá því að slökkvilið Vopnafjarðar var kallað út vegna elds í versluninni Kauptúni í nótt þar til fyrstu slökkviliðsmennirnir voru komnir inn og búnir að ná tökum á aðstæðum.

Slökkviliðið fékk útkall klukkan 4:55 um eldinn sem logaði í pappavörum á lager verslunarinnar. Viðvörunarkerfi skynjaði reykinn og gerði stjórnstöð Securitast viðvart sem lét eigendur Kauptúns vita.

Þeir hringdu á slökkviliðið og héldu eldinum í skefjum með slökkvitækjum þar til að hjálpin barst.

„Þetta gekk mjög vel. Fyrstu menn voru komnir inn með reykköfunartæki og búnir að ná tökum á eldinum ellefu mínútum eftir að útkallið kom," segir Sölvi Kristinn Jónsson sem stýrði aðgerðum liðsins í nótt.

Klukkan 5:30 var búið að ráða niðurlögum eldsins en vörurnar sem eldurinn logaði í voru teknar út. Sót og reykur barst um alla búð og ljóst að Kauptún verður að minnsta kosti lokuð í dag.

Sölvi Kristinn segir aðgerðirnar í heild sinni hafa tekið um klukkustund. Hann kann ekki nákvæmar skýringar á skjóti viðbragði slökkviliðsins.

„Við erum vel tækjum búnir og vel æfðir. Þetta eru vanir menn sem eru líka í björgunarsveit og á sjúkrabílnum þannig þeir eru kannski bara á tánum."

Mynd: Örn Björnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar