Tæplega þrjátíu komur skemmtiferðaskipa í sumar: Íbúafjöldinn í bæjunum margfaldast

veendam sfk skip 23072014Óhætt er að slá því föstu að íbúafjöldi Seyðisfjarðar hafi tvöfaldast í dag á meðan skemmtiferðaskipið Veendam lá þar við bryggjur. Tæplega 30 komur skemmtiferðaskipa eru skráðar til Austfjarða í sumar.

Veendam er stærsta skipið sem kemur í sumar og rúmar 1350 farþega. Um 300 farþegar nýttu sér dagsferðir sem í boði voru í dag frá Seyðisfirði en aðrir spókuðu sig um innanbæjar í veðurblíðunni. Um 700 manns búa í bænum.

Tæplega 30 skipakomur eru skráðar til Austfjarða í sumar, tíu þeirra til Seyðisfjarðar, níu til Eskifjarðar, átta til Djúpavogs og eitt skip heimsótti Norðfjörð og Mjóafjörð. Þetta eru fleiri komur en síðustu tvö ár.

Veendam sigldi af stað til Þórshafnar í Færeyjum síðdegis en það kemur til Djúpavogs 4. ágúst. Þar var í dag MS Delphin, sem rúmar 430 farþega en það var á Seyðisfirði í gær. Ellefu komur eru eftir í sumar.

Ferðaþjónustan Tanni Travel sér um að skipuleggja flestar ferðirnar sem farþegar skipanna fara í fyrir ferðaskrifstofurnar Iceland Travel, Atlantik og Farveg sem eru umboðsaðilar skipanna.

„Okkar hlutverk er að útvega bíla og leiðsögumenn og bóka mat og söfn þar sem við á," segir Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel.

Erfiðast er að útbúa tímaáætlanir fyrir ferðirnar en rúturnar með farþegunum mega helst ekki vera á sama stað á sama tíma. „Það getur verið töluvert mikið púsl því hraðinn er mikill þar sem skipin stoppa stutt."

Frá Seyðisfirði eru vinsælustu ferðirnar á Borgarfjörð, Fljótsdalshringinn og í göngu upp að Hengifossi. Farþegar sem koma til Eskifjarðar fara í ferðir á Norðfjörð og Reyðarfjörð en einnig er í boði gönguferð að hengifossi.

Þeir sem ekki fara í ferðirnar kjósa margir hverjir að kynna sér nánasta umhverfi skipsins á eigin vegum. „Þá er það þjónustuaðila þar að hafa eitthvað í boði sem heillar. Komur skipanna setja mark sitt á bæina og það er líf og fjör þegar farþegarnir koma í land."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar