Rólegt hjá lögreglunni þrátt fyrir fjölda fólks á svæðinu
Umferðin í umdæmi lögreglunnar á Egilsstöðum hefur gengið vel þrátt fyrir fjölda ferðamanna á svæðinu. Bílvelta varð á Jökuldal fyrr í dag en ökumaður slapp þar ómeiddur.„Umferðin hefur gengið rosalega vel þótt hún sé mikil," segir Snjólaug Guðmundsdóttir hjá lögreglunni á Egilsstöðum.
Bílinn sem valt á milli Hjarðarhaga og Skjöldólfsstaða í morgun mun vera ónýtur en ökumaðurinn, sem var einn á ferð, slapp ómeiddur.
Snjólaug segir „ekki hægt að kvarta" undan umferðinni en aðstæður á austfirskum vegum eru misjafnar þar sem slitlag hefur lagt á þá undanfarna daga.
Fjöldi ferðafólks er á svæðinu. Straumurinn hefur legið austur í sólina og tjaldsvæði eru þétt setin. Slys varð í Atlavík í fyrradag þar sem stúlka slasaðist þegar hún ætlaði að stytta sér leið undir fellihýsi en í þann mund var keyrt af stað með það. Hún var flutt á Akureyri til aðhlynningar en meiðsli hennar voru ekki jafn alvarleg og fyrst var óttast.
Þá kom Norræna til Seyðisfjarðar í morgun og margir eru á leið á Borgarfjörð þar sem Bræðslan verður haldin um helgina.
„Þetta hefur gengið vel og verið afar rólegt miðað við allan þann fjölda sem er á svæðinu," segir Snjólaug.