Vilhjálmur Hjálmarsson jarðsunginn

jardarfor vilhjalmur hjalmarsson 0037 webVilhjálmur Hjálmarsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, var jarðsunginn frá Mjóafjarðarkirkju. Ríflega 300 gestir sóttu athöfnina en kirkjan rúmar aðeins um 100 gesti og var hún frátekin fyrir nánustu ættingja og heiðursgesti.

Meðal heiðursgestar voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Tómas Árnason, Jón Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherrar og Helgi Seljan, fyrrverandi þingmaður.

Aðrir gestir voru úti í kirkjugarðinum í sólinni eða sátu í bílum sínum í nágrenninu en athöfninni var útvarpað á staðnum.

Prestur var séra Sigurður Rúnar Ragnarsson úr Neskaupstað. Kór Norðfjarðarkirkju söng í athöfninni en organisti var Monica Vestervig. Einsöng sungu Pétur Örn Þórarinsson, Margrét Lára Þórarinsdóttir og Þóra S. Guðmannsdóttir.

Kistuna báru barnabörn Vilhjálms: Sigurður Hjálmarsson, Vilhjálmur Stefánsson, Svanbjörg Pálsdóttir, Lárus Sigfússon, Vilhjálmur Pálsson, Vilhjálmur Hjálmarsson yngri, Margrét Sigfúsdóttir og Þorsteinn Garðarsson.

Vilhjálmur á heimili sínu Brekku í Mjóafirði, 99 ára að aldri þann 14. júlí síðastliðinn. Vilhjálmur lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni 1935. Hann stundaði búskap í um 30 ár, kenndi við barnaskólann í Mjóafirði og sinnti auk þess ýmis konar félagsmálastörfum.

Vilhjálmur sat lengi á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn, fyrst árið 1949, og gegndi embætti menntamálaráðherra 1974-1978.

Þegar þingsetu lauk árið 1979 tóku ritstörf við. Samtals komu út eftir hann 24 bækur sem hann skrifaði sjálfur og þrjár sem hann átti hlutdeild í. Sú síðasta, Örnefni í Mjóafirði, kemur út þann 20. september en þá hefði Vilhjálmur átt 100 ára afmæli.

Vilhjálmur var jarðsettur í Mjóafjarðarkirkjugarði við hlið konu sinnar, Önnu Margrétar Þorkelsdóttur. Þau eignuðust fimm börn; Hjálmar (látinn 2011), Pál, Sigfús Mar, Stefán og Önnu. Barnabörn Vilhjálms og Margrétar eru 18, barnabarnabörnin 35, barnabarnabarnabörnin fimm og tvö á leiðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar