Veiðimönnum heimilt að afhenda hreindýrakjöt beint til neytenda
Veiðimenn hreindýra mega nú afhenda kjöt af hreindýrum beint til neytenda eða smásölufyrirtækja án þess að það fari í gegnum sláturhús. Slíkar kröfur eru hins vegar fyrir kjöt sem fer í almenna dreifingu.Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gaf nýverið út reglugerð um breytingu á afhendingu frumframleiðanda beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja.
Eftir breytinguna, sem tekur mið af sænskum reglum, mega veiðimenn afhenda hreindýr beint til neytenda eða smásölufyrirtækja sem afhenda beint til neytenda án þess að þurfa að fara með hreindýrið í gegnum skoðun í sláturhúsi eða verkunarstöð, að því er fram kemur í frétt frá Matvælastofnun.
Hver veiðimaður má afhenda eitt dýr með þessum hætti.
Sé ætlunin hins vegar að vinna kjötið fyrir dreifingu á almennum markaði þarf dýrið að fara í gegnum sláturhús eða verkunarstöð og almenna heilbrigðisskoðun.