Ungi maðurinn kominn úr lífshættu
Karlmaður um tvítugt sem slasaðist alvarlega í bílslysi á Fagradal í morgun er kominn úr lífshættu. Þá slösuðust fjórir í öðru bílslysi á Háreksstaðaleið eftir hádegið en enginn alvarlega.Lögreglunni á Egilsstöðum var tilkynnt um bílslys á Fagradal klukkan 6:40 í morgun. Tæplega tvítugur karlmaður var þar á leið uppeftir til vinnu þegar bíll hans fór út af veginum.
Hann var fluttur með sjúkrabíl til Egilsstaða og þaðan flogið á Landsspítalann. Honum var haldið sofandi í fyrstu þar sem óttast var að hann væri í lífshættu en sú hætta er liðin hjá.
Hann hlaut höfuðáverka og alvarleg meiðsli. Tildrög slyssins eru óljós en málið er í rannsókn.
Klukkan 13:20 fór annar bíll út af veginum yfir Háreksstaðaleið og valt. Þar var á ferð móðir með tvær uppkomnar dætur sínar og tengdason á austurleið.
Þau slösuðust öll en ekki alvarlega og voru flutt í Egilsstaði til skoðunar. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri.
Helgin hjá lögreglunni í umdæmi sýslumannsins á Seyðisfirði var annars róleg miðað við fjölda gesta en Bræðslan var á Borgarfirði og smiðjuhátíð á Seyðisfirði.
Lögreglan leitar þó eftir vitnum sem kunna að hafa orðið vör við slagsmál á tjaldstæðinu á Borgarfirði á áttunda tímanum á sunnudagsmorgun. Hún var kölluð til vegna líkamsárásar en ekki hefur verið lögð fram kæra í málinu. Þeim sem geta veitt upplýsingar um málið eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Egilsstöðum.