Sif Hauksdóttir skólastjóri á Breiðdalsvík
Sif Hauksdóttir hefur verið ráðin skólastjóri á Breiðdalsvík. Hún bjó þar um árabil en snýr nú aftur að loknu námi og kennslustörfum annars staðar.Sif var meðal annars varamaður í hreppsnefnd Breiðdalshrepps á árunum 1994-1998. Eftir að hún flutti þaðan aflaði hún sér kennaramenntunar og hefur starfað sem grunnskólakennari í Vík í Mýrdal og síðustu tvö ár við Norðlingaskóla í Reykjavík. Þá hefur hún einnig stundað meistaranám við Háskólann á Akureyri.
Hreppsnefnd Breiðdalshrepps gekk frá ráðningu Sifjar á síðasta fundi sínu. Hákon Hansson, oddviti, segir Breiðdælinga mjög ánægða með að fá Sif austur.