Strandaði á afmælisdaginn: Fékk köku frá björgunarsveitinni
Björgunarsveitin Brimrún á Eskifirði kom trillu til bjargar í dag sem steytti á skeri í mynni Reyðarfjarðar. Skipstjórinn átti afmæli og því tók björgunarsveitin köku með í leiðangurinn.Trillan steytti á Rifsskeri í Reyðarfirði um klukkan fjögur í dag. Báturinn losnaði sjálfur af strandstað en stýrið var laskað svo Sunna SU-7 tók hann í tog.
Trillan var á leið í land þegar atvikið átti sér stað en skipstjórinn, sem var einn um borð og slapp ómeiddur, vissi ekki af skerinu.
Björgunarsveitarmenn úr Brimrúnu komu síðan á staðinn og fylgdu bátnum til hafnar. Fljótlega kom í ljós að skipstjórinn átti afmæli og sendi formaður Brimrúnar menn út í búð eftir afmælisköku.
Hún var keyrð út í sveit, sótt í fjöruna og svo slegið upp afmælisveislu á leiðinni í land.
Egill hefur þó ekki verið heppinn á sjónum í sumar þar sem þetta er í annað sinn sem Hrefna SU-22 strandar en hana rak upp í fjöru fyrr í sumar.
Bjarni F. Guðmundsson, formaður Brimrúnar og afmælisbarnið Egill Guðlaugsson ánægðir eftir allt með afmæliskökuna. Mynd: Brimrún/Þórlindur Magnússon