Greiðar flutningsleiðir forsenda fiskeldis á Austfjörðum

fiskiseidi djup mai14Greiðar skipasamgöngur við Austfirði er ein af megin ástæðum þess að fiskeldisfyrirtæki hafa kosið að starfa á svæðinu. Umtalsverð tækifæri eru talin felast í greininni við Íslandsstrendur þar sem náttúrulega skilyrði séu tilvalin.

„Aðalástæðan fyrir valinu á Austfjörðum eru frábærar samgöngur til og frá svæðinu allt árið um kring," segir í skýrslu um íslenskt fiskeldi sem fyrirtækið Laxar fiskeldi ehf. hefur látið gera. Þar er bent á reglulegar skipaferðir Eimskipa og Samskipa frá Austfjörðum til Evrópu.

Greint er frá skýrslunni í fréttaskýringu um íslenskt fiskeldi á sjávarútvegsvefnum Under Current. Þar kemur fram að Fiskeldi Austfjarða nái fram hagræði með að samnýta samnýti flutninga með fiskeldi í Færeyjum.

Kaldur sjór þar sem sjúkdómar séu fátíðir, góð vaxtarskilyrði fyrir lax og lágt raforkuverð eru meðal þeirra kosta Íslands fyrir fiskeldi sem taldir eru upp í skýrslunni. Bent er á að íslensku firðirnir séu opnir sem tryggi góð vatnsskipti. Þá fyrirfinnist sjúkdómar sem herjað hafa á fiskeldi erlendis ekki hér.

Framleiðslukostnaður hérlendis er sagður sambærilegur og í samkeppnislöndunum og aðföng, laun og þjónusta kosti minna hér en í Noregi. Þá felist tækifæri í notkun jarðvarma í eldinu.

Flókið og óljóst ferli við útgáfu leyfa fyrir eldinu er helsta vandamál fiskeldisins. Þá geti óveður sett strik í reikninginn þegar koma á ferskum fiski á markaði. Sum fyrirtæki láta fljúga með fiskinn til Bretlands þaðan sem hann er sendur áfram til Bandaríkjanna, Japans eða Evrópu.

Lega landsins er þó talin kostur í fréttaskýringunni þar sem það liggi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Fríverslunarsamningur við Kína opni einnig á frekari möguleika.

Laxar fiskeldi er með leyfi fyrir 6.000 tonna fiskeldi í Reyðarfirði og Fiskeldi Austfjarða með 8.000 tonna leyfi í Berufirði auk 3.000 tonnaleyfis í Fáskrúðsfirði. Fyrirtækin hafa sótt um leyfi til að auka eldið um 23.000 tonn. Þá er Samherji með 3.000 tonna leyfi í Mjóafirði.

Mynd: Magnús Kristjánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar