Landeigendur vilja nýjan veg utar í Berufirði
Landeigendur jarða fyrir botni Berufjarðar vilja að valin verði veglína utar í firðinum fyrir nýjan veg um fjörðinn heldur en er í gildandi aðalskipulagi Djúpavogshrepps. Þeir segja tillöguna lagða fram til að skapa sátt um veginn.Þetta kemur fram í bréfi til nýkjörinnar sveitarstjórnar Djúpavogshrepps sem undirritað er fyrir hönd ábúenda og eigenda Hvannarbrekku, Lindarbrekku I og II, Melshorns og 75% eigenda Berufjarðar.
Vegurinn er í dag einn af fáum malarköflum á Hringveginum en hugmyndir hafa verið uppi um að gera þar bragarbót á. Í bréfinu segir að þeim rökum hafi meðal annars verið haldið á lofti að ágreiningur ábúenda og landeigenda um legu vegarins hafi tafið fyrir.
Bréfritarar segja landeigendur og ábúendur hafa komið sér saman um tillögu að vegstæði með hliðsjón af umræðunni og hve brýnt verkefnið sé fyrir íbúa á svæðinu.
Þeir leggja til að valin verði veglína sem merkt er Q eða Z „eða jafnvel utar í botni fjarðarins" í stað þeirrar veglínu sem nú er á skipulagi.
Í dag er Berufjarðará þveruð utan við bæinn Melshorn en samkvæmt skipulaginu sem samþykkt var í vetur verður botn fjarðarins þveraður fyrir neðan og innan Berufjarðarbæina.
Í febrúar var staðfest breyting á skipulagi Djúpavogshrepps miðað við veglínu X. Þar sem fjörðurinn er þveraður utar en hann er í dag auk þess sem gert er ráð fyrir að Axarvegur komi niður austan megin við Berufjarðará, teljist ráðandi vegur og þeir tengist með T-vegamótum.
Veglínur Z og Q eru hins vegar enn utar í firðinum en þar er farið yfir við Staðareyri. Skipulagsstofnun gerði hins vegar athugasemd við það á sínum tíma að veglínurnar utar í firðinum hefðu í för með sér veruleg neikvæð umhverfisáhrif.
Í skýrslu sem Náttúrustofa Austurlands vann í tengslum við skipulagsbreytingarnar segir að áhrif af vegagerð í Berufirði geti orðið „töluvert neikvæð." Skerðing á túnum og ræktuðu landi hafi áhrif á efnahagslegt gildi fyrir þá sem þar eigi í hlut. Þá geti rask í Berufjarðará haft neikvæð áhrif og skert veiðitekjur.
Eins er varað við að röskum á leirum í Berufirði rýri búsvæði og lífsskilyrði fugla og fjörulífvera sem geti haft neikvæð áhrif á fjölbreytileika gróðurs og fuglalífs.
Í bréfinu segir að tillagan sé sett fram til að skapa sátt um veglagninguna og flýta framkvæmdum. Markmiðið með henni verði tjón á ræktuðu landi minnkað og vegalengdir styttist innan sveitarfélagsins sem geti skapað sparnað, svo sem í skólaakstri. Þá verði komið í veg fyrir að fara þurfi í eignarnám á landi en átökin hafa meðal annars staðið um það.
Þá leggjast bréfritarar einnig gegn T-gatnamótunum við Axarveginn sem þeir segja „ekki ásættanleg." Þeir vilja mislæg gatamót því þau „sú það sem koma skal enda mun slík framkvæmd auka umferðaröryggi vegfarenda."
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur samþykkt að kalla eftir formlegu áliti sérfræðinga Vegagerðarinnar á málinu til að meta meðal annars áhrif á kostnað og tímasetningar af breyttri framkvæmd.
Tillögur að veglínum í botni Berufjarðar. Mynd: Vegagerðin