Minni afli í júlímánuði á Austfjörðum
Um 15% minni afla var landað á Austfjörðum miðað við sama mánuð en í fyrra. Makríll og síld eru uppistaða aflans. Á sama tíma og löndun í flestum höfnum dregst saman eykst hún verulega á Vopnafirði.Þetta kemur fram í tölum um aflamagn í júlí sem Hagstofan birti í morgun. Þróun aflans á Austfjörðum er svipuð og annars staðar á landi en heildarveiði íslenskra skipa minnkaði 13,4% miðað við júlí í fyrra.
Á svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs var landað um 25.000 tonnum í júlí en þau voru um 30.000 í sama mánuði í fyrra. Makríll er uppistaðan í aflanum eða um 75% hans. Í lok júlí hafði verið landað um 19.500 tonnum af makríl í austfirsku höfnunum samanborið við 21.000 í fyrra sem er um 7% samdráttur.
Næst stærstu tegundirnar voru síld og þorskur en afli þessara tegunda minnkaði um 25-30%. Alls mynda þessar þrjár tegundir um 90% aflans á Austfjörðum.
Mestu munar um að 6.000 tonnum minna hefur verið landað í stærstu höfninni, Neskaupstað sem er þriðjungi en í fyrra. Á Fáskrúðsfirði minnkar aflinn um helming og víða á Austfjörðum um þriðjung.
Meiru var landað á Borgarfirði, Seyðisfirði og Mjóafirði. Langmest er þó aukningin á Vopnafirði þar sem í fyrra var landað 3.800 tonnum í júlí en 8.700 tonnum nú. Það er tæplega 5.000 tonna aukning eða ríflega tvöföldun sem skírist öll af makríl.