Þriðji hlýjasti júlímánuðurinn í sögunni á Teigarhorni

solbad valdi veturlidaNýliðinn júlímánuður var sá þriðji hlýjasti sem mælst hefur á veðurstöðinni á Teigarhorni í Berufirði en mælingar hafa staðið þar í 142 ár.

Meðalhiti mánaðarins á Teigarhorni var 10,7°C. Mánuðurinn var einnig hlýr á Egilsstöðum, 12,5 stiga meðalhiti sem gerir hann hinn fimmta hlýjasta í röðinni af þeim 60 sem mældir hafa verið. Á Dalatanga var meðalhitinn 9,2 stig sem er nokkuð nærri meðaltali undanfarins áratugar.

Lægsti meðalhiti var á Brúarjökli, 3,6 stig og á láglendi á Seley, 7,9 stig. Lægsti hiti sem mældist var -1,1 stig á Gagnheiði síðasta dag mánaðarins.

Mánuðurinn var úrkomusamur, víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið og sums staðar hefur úrkoma aldrei verið meiri í júlí.

Í Reykjavík mældist úrkoman 89,3 mm, sú mesta í júlí í 30 ár og 70% umfram meðallag, að því er fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar fyrir mánuðinn. Á Akureyri hefur ekki mælst meiri úrkoma í mánuðinum frá árinu 1943.

Fyrstu dagar mánaðarins voru kaldir en annars var hlýtt í veðri, einkum á Norður- og Austurlandi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar