Undirstöður urðaðar án leyfis í Skriðdal: Yfir 100 tonn loks flutt á rétta staði

raflinur skriddalVinna stendur yfir þessa dagana við að flytja yfir 100 tonn af gömlum raflínuundirstöðum frá Hryggstekk í Skriðdal til urðunar. Undirstöðurnar voru urðaðar án leyfis yfirvalda fyrir tæpum áratug.

Þegar reist var nýtt tengivirki við Hryggstekk var reist árið 2006 var einn verkþátturinn að grafa upp nokkrar gamlar undirstöður og farga þeim „í samræmi við vinnuaðferðir."

Í útboðsgögnunum var skilyrt að þeim yrði fargað innan fimm kílómetra frá verkstað. Verktaki fékk leyfi frá landeiganda en ekki var sótt um leyfið til yfirvalda.

Í ársbyrjun 2009 var loks óskað eftir formlegu leyfi til Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) sem vísaði erindinu áfram til Umhverfisstofnunar (UST).

Í bréfi HAUST til UST segir að þá hafi urðunin þegar farið fram, líklega í ágúst 2007. Þar segir enn fremur að um sé að ræða 105 tonn af undirstöðum úr tengivirki, það er járnbentri steinsteypu.

Umhverfisstofnun svaraði loks árið 2011 og ítrekaði þá að ekki hefði verið veitt leyfi fyrir urðuninni í samræmi við lög. Stofnunin samþykkti ekki urðunina og benti á að allur úrgangur skyldi færður á söfnunar- eða móttökustöð.

Sú vinna stendur nú yfir, sjö árum eftir að undirstöðurnar voru urðaðar. Þar sem er talið endurnýtanlegt er fært á móttökustöð en annað urðað á Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá.

Í samtali við Austurfrétt í dag sagði Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, að meira hefði komið upp úr jörðinni heldur en bara steypa, til dæmis „töluvert járn."

Aðspurð sagðist hún ekki geta útilokað að úrgangur hefði verið urðaður víðar án leyfis í stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi um miðjan síðasta áratug.

„Ef menn hafa einbeittan brotavilja þá eru ekki margir til frásagnar og ég myndi ekki vita af því. Því get ég ekki útilokað það."

Landsnet rekur tengivirkið á Hryggstekk og bauð út verkið á sínum tíma í samráði við VSÓ ráðgjöf sem óskaði síðar eftir leyfi fyrir urðuninni. Ekki náðist í forsvarsmenn Landsnets við vinnslu fréttarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar