Öryggisráðstöfun að rýma svæðið norðan Dyngjujökuls: Rýmt í Kverfjöllum og Hvannalindum

bardarbunga kortLögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði ákváðu í dag að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna í kring um Bárðarbungu undanfarna daga. Lögregluþjónar úr Seyðisfjarðarumdæmi fóru upp á hálendið í kvöld til að vinna að rýmingunni.

„Það er gripið til þessarar ráðstöfunar þannig að það verði ekki mannsskaði ef eitthvað gerist. Við mælumst til að fólk virði þessar lokanir," segir Jens Hilmarsson hjá lögreglunni á Egilsstöðum.

Lögregluþjónar þaðan fóru í kvöld á hálendið en þeirra verk er að tryggja að allir séu farnir úr Kverkfjöllum og Hvannalindum.

Kverkfjallaskálinn sjálfur er ekki á skilgreindu hættusvæði en það eru hins vegar allar leiðir að honum þannig að ef flóð kæmi í Jökulsá á Fjöllum yrði mjög erfitt að ná til fólks þar.

Þá lokar lögreglan á Egilsstöðum veginum frá Möðrudal til suðurs og Brúardalaleið.

Unnið er að rýmingu svæðisins en það er meðal annars með því að senda SMS í alla síma á svæðinu.

Í tilkynningu segir að aðgerðirnar séu öryggisráðstöfun þar sem ekki er hægt að útiloka að jarðskjálftavirknin undir Bárðarbungu geti leitt til eldgoss með stuttum fyrirvara. Engin merki eru enn um gos en reynslan er sú að jarðhræringar geti staðið lengi yfir áður og ef til goss kemur.

Viðbúnaðurinn nú er fyrst og fremst til að vera við slíku gosi búinn þar sem talið er óframkvæmanlegt sé að rýma svæðið með stuttum fyrirvara, gerist þess þörf.

Hættustigi almannavarna var lýst yfir í dag en það þýðir að „ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja.

Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig."

Mynd: Landmælingar Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar