Norðfjarðargöng: Þriggja kílómetra áfanganum náð

agust20082014 1Í lok síðustu viku var búið að grafa yfir 3 km af áætlaðri heildarlengd nýrra Norðfjarðarganga, eða rétt um 40% þeirra 7.566 metra sem verða grafnir í bergi. Um tveir þriðju hlutar þessa hafa verið grafnir Eskifjarðarmegin, en um þriðjungur í Fannardal.

Jarðgangagröfturinn hefur almennt gengið þokkalega. Þó svo að á köflum hafi hægt talsvert á vinnslunni vegna erfiðra jarðlaga og mikilla styrkinga, þá hafa einnig komið kaflar þar sem fremur lítilla styrkinga var þörf og gangavinnslan góð.

Framvinda síðustu viku var yfir meðallagi góð, 55,7 m Eskifjarðarmegin og 57 m í Fannardal. Setbergslag rís nú upp frá botni ganganna í Eskifirði og má búast við að það kalli á auknar styrkingar um tíma. Í Fannardal er nú basalt í göngunum, en allnokkuð brotið vegna misgengishreyfinga. Þrátt fyrir að talsvert þurfi að styrkja, þá er gangurinn ágætur í greftrinum.

Mynd 1: Setbergslag í vegstöð 4449 í Eskifirði rís nú á stafninum. Lagið er áætlað um 4,5 m á þykkt og mun kalla á auknar styrkingar þegar það nær þekju ganganna.

Mynd 2: Stafninn í Fannardal er nú eingöngu í basalti, en bergið er allt brotið vegna hreyfinga í jarðskorpunni.

Ljósmyndir: Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa

agust20082014 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar