Vinna að uppbyggingu Þokuseturs og þokustíga á Austurlandi
Félagarnir Hilmar Gunnlaugsson, Ívar Ingimarsson og Hafliði Hafliðason hafa nú um nokkurt skeið unnið að uppbyggingu miðstöðvar þokurannsókna, sagna úr lífi og leik Íslendinga (Austfirðinga) er tengjast þokunni og fróðleiks um þoku, eðli hennar og áhrif.Hugmynd þeirra gengur út á uppbyggingu Þokuseturs auk þokustíga víðs vegar um Austurland og eru þeir í viðræðum við sveitarfélagið Fjarðabyggð um aðstöðu og mögulega uppbyggingu þess á Stöðvarfirði.
„Til þessa höfum við fengið tvo styrki frá Vaxtasamningi Austurlands. Fyrst upp á 600.000 í nóvember 2013 og svo aftur 500.000 núna 4. Júlí s.l.,“ segir Ívar en Austurglugginn heyrði í honum á dögunum. „Við erum þakklátir fyrir þessa fjárveitingu og hefur hún hjálpað mikið til við að ýta verkefninu áfram með ýmsum hætti“, segir Ívar. Það má líka bæta því við að við höfum t.d fengið til liðs við okkur veðurfræðinginn Hálfdán Ágústsson og leikmyndahönnuðinn Björn G. Björnsson en sá síðarnefndi hefur einnig unnið fyrir okkur tillögu af þokusetri.“
Þokumennirnir, eins og þeir kalla sig, hafa líka notið aðstoðar Mannvits á Egilsstöðum sem hefur gert kostnaðaráætlun við standsetningu félagsheimilisins á Stöðvarfirði, auk viðbyggingar. Fjarðabyggð hefur gert kostnaðaráætlun við standsetningu hússins að utanverðu og Hlynur Gauti Sigurðsson, landslagsarkitekt FÍLS, hefur hannað tillögu að þokustíg. En af hverju þokustíga á Austurlandi?
Náttúran er okkar sérstaða
„Sérstaða Íslands er náttúra landsins,“ segir Ívar. „Erlendir ferðamenn koma hingað til lands að langmestu leyti til að njóta hennar. Þar leikur óspillt og lítt snortin náttúra mikið hlutverk. Markaðsrannsóknir sýna líka að stuttar gönguferðir eru mjög vinsælar hjá þessum hópi ferðamanna, ekki síst þeirra sem leigja bifreiðar og aka vítt og breitt um landið. Einmitt þess vegna teljum við að þokustígar á Austurlandi séu vel til þess fallnir að fanga athygli ferðamannsins og fá hann til að hægja á sér á svæðinu“.
„Í grunninn er þokustígur hugsaður sem gönguleið þar sem gott er að ganga þegar það er þoka og ágætis líkur á að við enda hans sé maður kominn upp úr þokunni og fái þá einstöku upplifun sem slíkri sjón fylgir – upplifun sem við Íslendingar teljum hins vegar oft hversdagslega. En sé engin þoka, þá er þokustígurinn eftir sem áður góð gönguleið fyrir ferðamenn sem vilja njóta náttúrunnar á hverjum stað“.
Félagarnir hafa þegar sett í sig í samband við öll sveitarfélögin á Austurlandi varðandi uppbyggingu þokastíga á hverjum stað. Þeir segja það ljóst að slík uppbygging yrði að vera liður í fjárfestingu hvers sveitarfélags um sig í ferðaþjónustu og innviðum hennar og segir Ívar að verkefninu miði vel áfram.
Spennandi ljósmyndakeppni
Þokumenn hafa nú hleypt af stokkunum ljósmyndakeppni í samvinnu við Myndasmiðjuna um bestu þokumyndina. Hugmyndin er að safna saman fallegum þokumyndum fyrir setrið og búa til dagatal sem selt verður til styrktar verkefninu. Tekið er á móti myndum til 20. september á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig er hægt að fylgjast með og fá nánari upplýsingar á síðunnu Þokusetur á fésbókinni.