Fjarðaál: Laun stjórnenda hafa hækkað með sambærilegum hætti og hjá öðrum stafsmönnum
Upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls segir launahækkanir stjórnenda ekki hafa verið meiri en þær sem almennir starfsmenn hafa notið. Laun hjá fyrirtækinu hafa almennt hækkað um 5% síðustu misseri.Miðað við úttekt Austurfréttar á launum Austfirðinga í byrjun mánaðarins hækkuðu laun Janne Sigurðsson, forstjóra Fjarðaáls, um tæpa milljón frá árinu 2012 til 2013 og laun annarra stjórnenda um tæp 10%.
Framleiðslustarfsmenn sem Austurfrétt ræddi við halda því hins vegar fram að þótt þeirra laun hafi hækkað um 2,8% í nýjum kjarasamningi hafi frammistöðuávinningur dregist saman um 3% þannig þeir hafi orðið fyrir launaskerðingu á meðan stjórnendurnir hafi hækkað.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, segir þessar fullyrðingar ekki standast.
„Að meðaltali hækkuðu laun hjá þeim sem vinna undir kjarasamningi Fjarðaáls um 6%. Inni í því er 2,8% hækkun á mánaðarlaun samkvæmt kjarasamningi en svo er launakerfi Fjarðaáls þannig uppbyggt að launaþróun tekur tilliti til starfsaldur og hæfni.
Laun fastráðinna starfsmanna hjá Fjarðaáli þar á meðal stjórnenda taka mið af launum á vinnumarkaði og meðal annars er stuðst við niðurstöður kjarakannana.
Frammistöðuávinningur byggir á mælikvörðum um árangur og gildir jafnt um alla starfsmenn fyrirtækisins. Frammistöðuávinningur starfsmanna hefur öll árin frá því Fjarðaál hóf rekstur verið hærri en viðmiðunarmörk um góðan árangur gera ráð fyrir."
Hún segir því að almennt hafi laun stjórnenda hækkað með sambærilegum hætti og hjá öðrum starfsmanni. Fyrirtækið tjái sig að öðru leyti ekki um laun einstakra starfsmanna.