Nú þurfa menn að vera þolinmóðir: Biðtíminn eftir gosi getur verið langur og ekkert víst að gjósi

isolfur halendisvakt agust14 adam eidur 0006 webViðbragðsaðilar á Austurlandi eru í viðbragðsstöðu ef eldgos býst út í Bárðarbungu. Menn þurfa samt að taka á þolinmæðinni þar sem óljóst er hve langan tíma það ástand varir. Ekki eru fyrirhugaðar frekari lokanir á vegum.

„Það er búið að yfirfara virkni Aðgerðarstjórnstöðvar og setja alla viðbragðsaðila í viðbragðsstöðu. Þá var þessi fundur hugsaður til að vekja viðbragðseiningar og hagsmunaaðila til umhugsunar um fyrirliggjandi ástand og hugsanlegar forvarnir sem hver og einn gæti gert á sínu sviði," segir Lárus Bjarnason, sýslumaður á Seyðisfirði.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðaði hagsmunaaðila á svæðinu á fund í húsi björgunarsveitarinnar á Egilsstöðum í morgun til að fara yfir hugsanleg viðbrögð.

„Nú þurfa menn að vera þolinmóðir. Menn bíða og ástandið getur varað lengi án þess að nokkurn tíma gjósi. Sömuleiðis er viðbúið að ef gýs þá vari ástand einnig lengi en líði ekki hjá á skömmum tíma."

Meðal þeirra áætlana sem gerðar hafa verið er um rýmingu í Möðrudal. „Önnur svæði er ekki hægt að sjá fyrir sér fyrirfram að séu hættusvæði gagnvart hugsanlegu eldgosi að svo stöddu hvað varðar jökulhlaup. Öskufall og mengun mun væntanlega ráðast af vindátt þegar og ef gos hefst."

Rætt hefur verið sauðfjárbændur á svæðinu en Lárus segir að ákvörðun um smölun sé undir þeim komin, þeir verði ekki þvingaðir til að smala.

Þá eru ekki fyrirhugaðar frekari lokanir á vegum. Mannaðar vaktir eru á hálendinu en Lárus segir að erfitt geti verið að halda uppi mannaðri lokun á mörgum stöðum.

Fulltrúar Vegagerðarinnar sátu einnig fundinn í morgun. Þar hafa menn fyrst og fremst áhyggjur af vegasamgöngum á milli Austur- og Norðurlands, einkum brúnum á Jökulsá á Fjöllum.

„Við höfum í undirbúningi að rjúfa vegina til að freista þess að hlífa brúnum og eins verja þær með grjótvörn. Það miðast við flóð sem væru ekki hamfaraflóð en þá yrði ekki neitt við neitt ráðið. Einnig er verið að taka stöðuna á efni í bráðabirgðabrú og hvar og hvernig heppilegast gæti verið að smíða slíka brú ef til þess kæmi."

Fjallvegirnir F88, F 902, F903, F905 og F910 eru að stórum hluta lokaðir en hægt er að sjá kort á vef Vegagerðarinnar.

Mynd: Adam Eiður Óttarsson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.