Menn tilbúnir ef til goss kemur: Algengast að svona kvikuinnskot storkni niður í jörðinni

almannavarnir 22082014 0005 webDeildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir Austfirðinga vel undirbúna ef til eldgoss kemur í Bárðarbungu. Kvikuinnskot er í eldstöðinni og aðeins í 10% tilvika verða þau að eldgosum. Mögulegar afleiðingar eru samt slíkar að menn verði að vera við öllu búnir.

„Menn meta líkurnar á gosi talsverðar. Það dró heldur úr virkninni í nótt en við höfum svo sem séð hana minnka áður. Virknin hefur verið það mikil að maður er búinn að færa til skalann hjá sér.

Í nótt urðu 400 skjálftar sem er helmingurinn af því sem er í meðalári þannig við verðum að vera á tánum áfram," segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar.

Skjálftahrinan hófst síðastliðinn laugardag. Kvika streymir úr megineldstöðinni í Bárðarbungu inn í 25 km langan berggang til norðausturs. Því telja menn líklegast að ef gos kemur upp úr jörðinni og bræðir jökulinn að vatn renni í Jökulsá á Fjöllum og valdi þar hlaupi fremur en suðurs líkt og í síðasta gosið árið 1996.

Fram kom í máli Víðis í upphafi fundar með viðbragðsaðilum á Austurlandi að 9/10 slíkura kvikuinnskota storkna í bergganginum og koma ekki upp úr jörðinni.

„Slík dæmi sjást víða þar sem ís eða vatn hefur sorfið berg og er sjáanlegt víða á Austurland. Vonandi verður það sem gerist. Afleiðingarnar af gosi er hins vegar það miklar að við þurfum að vera tilbúnir að takast á við þær."

Á morgun var farið yfir stöðuna og hugsanlega þróun miðað við upplýsingar frá jarðvísindamönnum. Þá kynntu viðbragðsaðilar þær ráðstafanir sem þeir hafa unnið að og menn stilltu saman strengina.

„Á síðustu dögum höfum við náð að verða mun betur undirbúnir og hér eru menn komnir langt með undirbúa sig ef gos kemur."

Áhyggjur Austfirðinga snúast um öskufall og hugsanlegt flóð í Jökuls á Fjöllum sem gæti rofið samgöngur við Norðurland og truflað fjarskipti og raforkuflutninga verulega.

Öskufall gæti einnig haft verulegar afleiðingar en fulltrúar bænda og Matvælastofnunar sátu fundinn í morgun.

„Menn hafa rætt hvað hægt sé að gera til að minnka áhrifin, til dæmis að smala fyrr. Það er greinilega verið að gera í mikilli samvinnu og það er hughreystandi að menn eru búnir að gera áætlanir."

Búið er að loka leiðum á hálendingu og fylgja Vegagerðin, lögregla og björgunarsveitin því eftir. Þá eru viðbragðsaðilar eystra tilbúnir að veita aðstoð ef rýma þarf íbúabyggð í Þingeyjasýslu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.