Kjöt- og fiskbúð Austurlands lokar: Ömurleg tilfinning að þurfa að gera þetta!

eirikur audunn audunsson fiskbud 0001 webKjöt- og fiskbúð Austurlands var formlega opnuð á Egilsstöðum þann 24. janúar og hefur Eiríkur Auðunn Auðunsson eða Eiki eins og hann er alltaf kallaður staðið vaktina síðan. En hann mun ekki gera það mikið lengur þar sem verslunin lokar í dag og er óvíst hver framtíð hennar verður.

„Þetta er einfaldlega endurskipulagning á fyrirtækinu“, segir Eiki þegar Austurfrétt hafði samband við hann. „En það er ömurleg tilfinning að þurfa að gera þetta. Ég svaf ekki dúr í nótt og mér þótti rosalega erfitt að setja miðann í hurðina í morgun“.

Þetta er ekki gjaldþrot

Kjöt- og fiskbúð Austurlands var formlega opnuð á Egilsstöðum þann 24. janúar á þessu ári og eru hluthafar þrír: Gestur Jens Hallgrímsson frá Blöndubakka, Þorsteinn Bergsson frá Unaósi og Eiríkur Auðunn Auðunsson sem hefur alfarið séð um reksturinn á búðinni.

„Það er búið að vera fínt að gera í búðinni enda ekki auðvelt að nálgast margar þær vörur sem við höfum haft á boðstólnum, en vinnan og álagið hefur verið mikið. Ætli ég sé ekki búin að skila af mér um það bil 450 vinnustundum á mánuði síðan í janúar. Álagið hefur fyrst og fremst komið niður á fjölskyldu minni og ekki síður á mér . Ég greindist með hjartagalla fyrir skemmstu og hreinlega þoli ekki svona mikið álag lengur. Þetta eru fyrst og fremst ástæðurnar fyrir því að ég tek þessa ákvörðun um að loka, veikindi og persónulegar ástæður. Fyrirtækið er ekki gjaldþrota og það er ekki í skuld“.

Framhaldið óljóst

Kjöt- og fiskbúðin lokar frá og með deginum í dag og er óvíst hvað verður um framtíð hennar. „já við skellum í lás eftir daginn í dag, og þó svo framtíðin sé óljós þarf þetta ekki að vera endalokin. Þó svo að ég geti ekki lengur tekið að mér svona mikla vinnu þá er spurning hvort einhver vill freista gæfunnar og taka við keflinu, þetta er alveg tilvalið fyrir tvo samhenta aðila og ég er meira en til að vera þeim innanhandar og veita þeim leiðsögn ef þeir gefa sig fram. 

Þakklæti og söknuður.

Þegar Eiríkur opnaði verslunina í janúar hugsaði hann þetta fyrst og fremst sem samfélagsverkefni. „Já, þetta var aldrei hugsað sem gróðafyrirtæki. Ég vildi alltaf að fyrirtækið myndi vaxa og dafna á þann hátt að hægt væri að borga laun en fyrst og fremst til að þjónusta íbúa svæðisins og bjóða upp á ferskar vörur. Þess vegna er þetta pínu sárt, það er búið að leggja mikla vinnu í þetta og margir viðskiptavinanna eru orðnir góðir vinir mínir. Ég kveð því með söknuð, en ég vil ég þakka öllum fyrir viðskiptin, mér þykir leitt að hafa þurft að taka þessa ákvörðun, en nú verð ég að standa með sjálfum mér og fjölskyldunni“, segir Eiki að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar