Endurskoðun á starfsemi og stjórnskipulagi Austurbrúar: Tillögur starfsháttanefndar að skýrast

austurbru stofnun midarStarfsháttanefnd Austurbrúar hefur sent drög að tillögum um breytingar á stjórnskipulagi og starfsemi til umsagnar hjá aðilum sem standa að sjálfseignarstofnuninni.

Lokatillögur nefndarinnar verða síðan lagðar fyrir framhaldsársfund 30. september og búast má við töluverðum breytingum á skipulagi stoðstofnunarinnar í kjölfarið.

Á ársfundi Austurbrúar sl. vor var starfsháttanefnd stofnunarinnar falið að endurskoða starfsemi og stjórnskipulag Austurbrúar ses. sem hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar á fyrstu tveimur starfsárum sínum.

Nefndinni var gefinn tími til hausts til að móta tillögur fyrir framhaldsársfund um hvað betur mætti fara hjá hinni sameinuðu stoðstofnun Austurlands. Jafnframt tók Jóna Árný Þórðardóttir, sem átti sæti í starfsháttanefnd, tímabundið við starfi framkvæmdastjóra sl. vor.

Hennar sæti í nefndinni tók Guðrún Á. Jónsdóttir, fulltrúi háskólanáms og rannsókna hjá Austurbrú. Aðrir nefndarmenn eru Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, sem er formaður nefndarinnar, og Björn Hafþór Guðmundsson, fyrrum formaður og framkvæmdastjóri SSA.

Helstu atriði í þeim tillögudrögum sem nú eru til umfjöllunar eru þau að skilin milli Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrúar verði skerpt en fram til þessa hefur m.a. sami stjórnarformaður farið fyrir báðum þessum aðilum.

Þá leggur starfsháttanefnd til breytingar á stjórn og fagráði sem miða að einföldun og betri tengingu milli stjórneininga stofnunarinnar.

Jafnframt miða tillögur nefndarinnar að breytingum á innra skipulagi til að undirbyggja þann sveigjanleika og þá þverfaglegu samvinnu sem lagt var upp með að yrði einn af kostum sameinaðrar stoðstofnunar þegar starfsemi Þekkingarnets, Markaðsstofu, Menningarráðs og Þróunarfélags Austurlands rann saman í Austurbrú ses. vorið 2012.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar