Starfshópur skipaður um gjaldtöku í innanlandsflugi: Valdimar O. fulltrúi Austurlands
Valdimar O. Hermannsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, hefur verið skipaður í starfshóp innanríkisráðherra um gjaldtöku í innanlandsflugi. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér tillögum í október.Starfshópnum er ætlað að skoða skatta og gjöld sem lögð eru á flugrekstur í áætlunarflugi innanlands, þar með talin flugþjónustugjöld, svo sem farþegagjöld, lendingagjöld, flugleiðsögugjald og svokölluð ETS gjöld á grundvelli losunar gróðurhúsalofttegunda auk annarra gjalda af flugvélaeldsneyti.
Jafnframt á hópurinn að skoða kostnað við þá þjónustu sem veitt er á grunni þessara gjalda og gera tillögur að úrbótum ef ástæða er til.
Innanríkisráðherra hét að skipa hópinn í febrúar eftir fund með hagsmunaaðilum á Austurlandi. Upphaflega var gert ráð fyrir að hann skilaði af sér fyrir sumarið en það tefst þar sem hópurinn var ekki fullskipaður fyrr en í lok júlí.
„Nú þegar hafa verið haldnir þrír fundir, í starfshópnum, meðal annars. með aðkomu Isavia og fleiri hagsmunaaðilum," segir Valdimar um vinnu hópsins en hann er tilnefndur í hann af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Okkur er ætlað að skoða þær leiðir sem mögulegar eru til að ná fram lækkun á fargjöldum í innanlandsflugi, en sá kostnaður er orðinn verulega íþyngjandi fyrir meðal annars fyrir fyrirtæki stofnanir og íbúa á landabyggðinni."
Auk Valdimars eru í hópnum þingmennirnir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður og Steingrímur J. Sigfússon, sérfræðingarnir Björney Inga Björnsdóttir og Viðar Helgason sem tilnefnd eru af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, sem tilnefndur er af Samtökum atvinnulífsins.
Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu innviða hjá innanríkisráðuneytinu, verður starfsmaður hópsins.