Árni Páll: Íslenska krónan er kúgunartæki gagnvart vinnandi fólki

arni pall arnason sept14Formaður Samfylkingarinnar telur það borna von að Íslendingar geti búið við sambærileg lífskjör og aðrar þjóðir á Norðurlöndunum á meðan þeir notist við íslensku krónuna. Á meðan verði erfitt að sannfæra Íslendinga til að snúa aftur heim eftir nám erlendis.

„Við eigum engan gjaldmiðil sem heldur verðgildi sínu frá ári til árs. Þannig gjaldmiðill er kúgunartæki gagnvart vinnandi fólki því það getur ekki lagt fyrir," sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á opnum stjórnmálafundi á Seyðisfirði á miðvikudagskvöld.

„Við megum ekki missa sjónar á því að við glímum enn við áhrif kjaraskerðingar sem við urðum fyrir í hruninu. Hrunið er komið til að vera eða öllu heldur áhrif þess.

Áður stóðum við jafnfætis hinum Norðurlöndunum í kaupmætti en nú erum við hálfdrættingar á við þau.

Ég þekki enga starfstétt sem ekki getur horft til Noregs og séð þar betri kjör. Það er staða sem getur ekki enst. Ef við ætlum að fá fólkið okkar og ástvini heim úr námi þá getum við ekki búið við þessi kjör."

Árni Páll sagði þessi eftirköst hrunsins beina afleiðingu krónunnar. Við bætist fleiri vandamál eins og háir vextir sem hann telur bitna sérstaklega á landsbyggðinni. „Við viljum norrænt velferðarkerfi og þá verðum við að búa við norræn lífskjör."

Árni Páll, sem var félags- og tryggingamálaráðherra og síðar efnahags- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn, hafnaði því að sú stjórn hefði ekki rétt heimilunum í landinu hjálparhönd. Sérstök áhersla hefði verið lögð á að koma í veg fyrir gjaldþrot einstaklinga og mýmörg dæmi hefði verið um að það hefði tekist.

„Í fyrsta sinn mun fólk koma frá hruni án þess að missa húsnæði sitt. Með greiðsluaðlöguninni borgar fólk eins og það getur í 2-3 ár. Hún virkar en það er ekkert talað um það og við sjálf höfum gleymt að tala um hana."

Hann sagði einnig að það væri „þjóðþrifamál" að losna við smálánafyrirtækin. Þau leiddu oft til harmleikja því meðal þeirra sem tækju lán væri fólk með símtæki sem ekki gerði sér grein fyrir afleiðingum þess að senda SMS í auglýst númer. Það lenti síðan á aðstandendum þess að borga til baka.

Í ráðherratíð hans voru settar reglur um starfsemi fyrirtækjanna og hélt Árni Páll því fram að Neytendastofa væru nú að „þrengja að" starfsemi þeirra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar