Lögregla rannsakar tildrög strandsins

akrafell strand3Rannsókn lögreglu á tildrögum þess að flutningaskipið Akrafell strandaði við Vattarnes snemma í morgun er að sögn á viðkvæmu stigi. Lögregla hefur rætt við skipstjórann og skipverja.
„Við höfum okkar grun eða vísbendingar en getum ekkert látið uppi um það“, sagði Þórhallur Árnason, lögregluvarðstjóri á Eskifirði, og vildi lítið tjá sig um gang rannsóknarinnar.

Lögregla fór um borð í Akrafell snemma í morgun og ræddi við skipstjórann og skipverja. Alls eru áhafnarmeðlimir þrettán talsins, og eru þeir allir erlendir ríkisborgarar. Skipstjórinn er frá Úkraínu. Sex þeirra eru nú um borð Akrafellinu en hinir eru um borð Aðalsteini Jónssyni sem er á strandstað.

Unnið er að því að hefja bráðabirgðaviðgerðir í skipinu. Suðuefni hefur verið flutt um borð núna seinni partinn og þá kom kafari með Syn, annarri þyrlu Landhelgisgæslunnar, en Líf var fyrir á staðnum.

Með Syn kom einnig ný áhöfn á stærri þyrluna sem bíður nú átekta. Þá kom varðskipið Ægir á strandstað upp úr hádeginu.

Með flóðinu kom smá hreyfing á skipið en það hefur þó ekki færst af strandstað. Ekki er að sögn fyrirhugað að gera neitt í bráð varðandi gámana eða olíuna sem er um borð. Ekki hefur orðið vart neinnar olíumengunar en alls eru um borð í skipinu eru 140 þúsund rúmmetrar af olíu.

Takist að gera að einhverju leyti við götin sem komu á skipið við strandið má búast við að reynt verði að draga skipið af strandstað á næsta háflóði sem verður um miðnætti. Ekki er þó víst að af því verði.

Mynd: Akrafell á strandstað - GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar