Vilja ekki fá olíu í viðkvæmt lífríkið: Engin mengun sýnileg
Engin olíumengun er sýnileg á strandstað flutningaskipsins Akrafells við Vattarnes. Tæki og tól hafa verið flutt á staðinn þannig hægt sé að bregðast við ef olía byrjar að leka úr skipinu.„Það er viðkvæmt lífríki á svæðinu og við viljum ekki fá svartolíu út í umhverfið," segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.
Áætlað hefur verið að 140.000 rúmmetrar af olíu séu í skipinu, mest svartolía.
Strax í morgun voru sendar girðingar, sem eiga að hefta útbreiðslu olíu í sjó, frá Reyðarfirði og Seyðisfirði. Girðingin frá Seyðisfirði liggur útdregin í fjörunni við Vattarnes tilbúin ef á þarf að halda.
Í kvöld var væntanlegur bíll úr Reykjavík með tæki og tól til að bregðast við mengun. Um borð í honum voru bæði girðingar og tæki til upptöku olíu úr sjó.
Landhelgisgæslan stýrir aðgerðum á svæðinu en Umhverfisstofnun tekur við stjórn mengunarvarna og nýtur fullsinnis Olíudreifingar ef mengun mælist.
Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar voru um borð í TF-Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar, sem flaug yfir svæðið í dag og komu síðan á strandstað síðdegis.
Hvorki hefur sést mengun frá skipinu né greindist hún á mælitækjum um borð í flugvélinni, sem numið geta mengun þótt hún sé ekki sýnileg mannsauganu.
„Það virðist enginn leki vera og því erum við í viðbragðsstöðu og bíðum," segir Ólafur.
Meungargirðingin tilbúin í fjörunni á Vattarnesi. Mynd: GG