Bláa móðan: Hæstu gildi brennisteinsdíoxíðs sem mælst hafa í byggð hérlendis
Sóttvarnarlæknir varar fólk við mikilli áreynslu utandyra á meðan blá brennisteinstvíildismóða liggur yfir Austfjörðum. Gildi sem mældust í gær eru þau hæstu sem mælst hafa í byggð á Íslandi. Mengunin er áþekk því sem gerist í stórborgum.Mengunin kemur frá eldgosinu í Holuhrauni og hefur vegna ríkjandi sunnavinda legið yfir nær öllu Austurlandi.
Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni kemur fram að há gildi hafi mælst á vöktunarstöðvum í Reyðarfirði og loftmyndir hafi bent til að mengun væri jafnvel enn meiri á Jökuldal og Fljótsdal.
„Þau gildi sem mældust í gær eru þau hæstu sem mælst hafa í byggð hér á landi síðan mælingar á mengun hófust á Íslandi nokkuð fyrir 1970."
Búast má við sambærilegum gildum en veðrið verður áfram svipað og gangur gossins sá sami. „Þó þessi gildi séu einstök hér á landi eru sambærileg og jafnvel enn hærri gildi þekkt í stórum iðnaðarborgum.
Miðað við mælingar síðustu daga má búast við að hæstu gildi í byggð, í vindátt frá gosstöðvunum, geti verið á bilinu 500-1.000 µg/m3(míkrógrömm á rúmmetra)."
Varað við áreynslu
Fram kemur að fullfrískt fólk ætti ekki að vinna fyrir neinum áhrifum eins og staðan er núna. Því er samt ráðlegt að forðast „mikla áreynslu utan dyra.
Fólk sem er viðkvæmt fyrir eins og börn og fullorðnir með astma og aðra sjúkdóma í öndunarfærum eða hjartasjúkdóma getur fundið fyrir óþægindum og ætti að forðast mikla áreynslu.
Fólk sem notar innöndunarlyf vegna lungnasjúkdóma gæti þurft að auka lyfjaskammtinn í samráði við sinn lækni. Mikilvægt er að sjúklingar hugi að því að hafa lyf sín tiltæk."
Minnt er á að öndun um nef í stað munns dragi úr áhrifum brennisteinstvíildis.
„Ekki er hægt að útiloka að gildi verði hærri en 1.000 µg/m3 og því mikilvægt að fólk fylgist með upplýsingum um mengunina. Miklar sveiflur geta verið á styrk mengunarinnar og eru vindátt og vindstyrkur ráðandi þættir að því gefnu að gosið sé stöðugt."
Mismunandi mengunarmörk
Unnið er að koma upp mælum eins og á Reyðarfirði víðar, til dæmis á Egilsstöðum. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Austurlands fóru um kvöldmatarleytið í gær með handmæla um Hérað og niður á Reyðarfjörð en styrkur mengunarinnar þá mældist ekki inn á mælisviði mælanna. „Allt bendir til að á þeim tíma hafi mengunin verið minni en hún var mest um klukkan 15 á laugardeginum."
Áhrif loftmengunar á heilsu fólks er háð tveimur þáttum sem verða ekki aðskildir. Það eru annars vegar styrkur mengunar og hins vegar það tímabil sem mengunin stendur yfir. Margfeldi þessara tveggja þátta er kallað útsetning (exposure).
Þannig getur verið að mengunartoppur sem hefur mjög háan styrk en stendur stutt yfir hafi óveruleg áhrif á heilsu fólks en að toppur sem hefur mun lægri styrk en varir lengi hafi meiri áhrif á heilsu. Þetta endurspeglast í hinum mismunandi mörkum. Þannig eru mengunarmörk SO2 fyrir klukkutímann 350 µg/m3 og fyrir sólarhringinn 125 µg/m3
Heilsuverndarmörk eru miðuð við alla hópa sem viðkvæmir eru fyrir mengun, þar með talið börn og því eru þau strangari en vinnuverndarmörk sem aðeins eru miðuð við vinnandi fólk og aðeins í 8 tíma á dag hluta vikunnar."
Tölurnar frá Reyðarfirði í gær
Mæligildi laugardagsins 6.september á Reyðarfirði má sjá hér að neðan ásamt ýmsum mörkum sem í gildi eru.
Sólarhringsmeðaltal á Reyðarfirð 6.sept var 152µg/m3
. Heilsuverndarmörk fyrir sólarhring eru 125µg/m3 og leyfilegt er að fara yfir þau mörk þrisvar á ári.
Hæsta klukkutímameðaltal á Reyðarfirði var 580 µg/m3
. Heilsuverndarmörk fyrir klukkutíma eru 350µg/m3 og leyfilegt er að fara 24 sinnum yfir þau á ári.
Hæsta 10 mínútna meðaltal á Reyðarfirði mældist 659µg/m3 en engin mörk eru um 10 mín meðaltal.
Vinnuverndarmörk fyrir 8 tíma vinnudag eru 1300 µg/m3 en hámarksgildi fyrir hverjar 15 mínútur er 2600µg/m3
. Vinna er ekki heimil ef gildi fer yfir 2600µg/m3
Há gildi klukkustundargildi í menguðum iðnaðarborgum geta hlaupið á þúsundum µg/m3