Ferðamönnum bjargað: Björgunarsveitir sendar á rangt fjall
Hátt í 50 manns úr björgunarsveitum á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í að bjarga manni, sem var í sjálfheldu, og félaga hans niður af Ófeigsfjalli fyrir ofan Eskifjörð á mánudag.Samkvæmt fyrstu fréttum var maðurinn í sjálfheldu í klettabelti í Hólmatindi, en félagi hans uppi á tindinum sjálfum. Austfirskir björgunarmenn sem komu á staðinn lögðu á Hólmatind upp frá Sómastöðum og voru komnir langleiðina upp í hlíðar fjallsins þegar í ljós kom að fyrstu upplýsingar voru rangar og að mennirnir væru staddir á Ófeigsfjalli, sem er handan Eskifjarðar.
Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að leita hafi þurft að mönnunum þar sem staðsetning þeirra hafi ekki verið sú sem fyrstu upplýsingar frá þeim hafi gefið til kynna.
Ferð björgunarmanna upp fjallið var erfið í myrkrinu en rétt fyrir kl 22.00 kom þyrla Landhelgisgæslunnar á staðinn og með aðstoð björgunarmanna náðust báðir mennirnir um borð. Voru þeir heilir á húfi og flutti þyrlan þá til Eskifjarðar.