Brennisteinsdíoxíð hefur sömu áhrif á dýr og menn

blaa modan 05092014 0021 webMatvælastofnun beinir því til dýraeigenda að verja skepnur sínar fyrir loftmengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Mengunin hefur svipuð áhrif á dýr og menn.

Í tilkynningu MAST segir meðal annars að brennisteinsdíoxíð valdi ertingu í öndunarfærum og augum. Áhrifin eru meiri því lengur sem dýrin eru útsett fyrir menguninni.

Þegar styrkur brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti er hár þarf að reyna að draga sem best verður á kosið úr álagi á öndunarfæri.

Þetta er rétt að hafa í huga við smölun þá daga sem mengunin er mikil, því meðal þess sem þarf að varast eru mikil hlaup og streita.

Engin opinber viðmiðunarmörk eru til fyrir styrk brennisteinsdíoxíðs í umhverfi dýra og rannsóknir eru takmarkaðar.

Matvælastofnun mælir með að miðað sé við sömu mörk og gilda fyrir fólk. Heilsuverndarmörk fyrir eina klukkustund eru 350µg/m3 en mörkin fyrir einn sólarhring eru 125µg/m3.

Styrkur efnisins mældist yfir mörkum á milli klukkan tvö og fjögur í gærdag á Egilsstöðum og Reyðarfirði.

Spár Veðurstofunnar gefa til kynna háan styrk mengunarinnar frá eldgosinu í Holuhrauni á svæðinu frá norðanverðum Austfjörðum norður á Langanes. Ekki er útilokað að mengunarinnar gæti á stærra svæði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar