Langhæsta gildi brennisteinstvíildis sem mælst hefur á Íslandi

blaa modan 05092014 0010 webBrennisteinstvíildi (SO2) mældist 3946 μg/m3 í andrúmslofti á loftmæli við Kollaleiru í Reyðarfirði klukkan 22:20 í kvöld. Þetta er langhæsta gildi sem mælst hefur á Íslandi. Mengunin stafar frá eldgosinu í Holuhrauni.

Brennisteinsmengunin hefur lagt yfir Austurland undanfarna daga en í kvöld varaði Veðurstofan við því að í kvöld og nótt myndi mengunina leggja frá gosstöðvunum og yfir mið-Austurland.

Toppurinn í kvöld reis hratt eftir klukkan níu og náði hámarki rúmlega tíu. Í gær mældist 2600 μg/m3 á Reyðarfirði sem var þá það hæsta sem mælst hefur í byggð á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er einkenni frá öndunarfærum líkleg hjá öllum einstaklingum þegar gildi brennisteinsins fer yfir 3000 μg/m3 í að minnsta kosti 15 mínútur.

Við þær aðstæður er fólki ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu.

Toppurinn stóð þó hins vegar stutt og tíu mínútum síðar var gildið á Kollaleirustöðinni komið niður undir 1000 μg/m3. Mengunarskýið rak út með firðinum því afar há gildi mældust úti á Hólmum nokkrum mínútum síðar.

Mælingarnar má sjá á www.loftgaedi.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar