Gagnvirkt spákort um gosmengun á vef Veðurstofunnar: Reynt að auka mælingar í byggð
Aðgengi hefur verið aukið að upplýsingum um mengun frá eldgosinu í Holuhrauni á vef Veðurstofunnar. Unnið er að ráðstöfunum til að fylgjast betur með gosmengun í byggð.Síðustu daga hefur Veðurstofan birt textaspár um dreifingu mengunarinnar en á vef hennar er nú einnig að finna gagnvirkt kort þar sem sjá má væntanlega dreifingu mengunarinnar.
Samkvæmt spám má reikna með mengun innst á Fljótsdalshéraði og suðurfjörðum um og eftir kvöldmat á morgun. Ekki er hægt að útiloka að mengunarinnar verði vart á stærra svæði.
Þá hefur Veðurstofan opnað nýtt vefsvæði þar sem gestir geta skráð hvort þeir hafi orðið við mengun. Hægt er að nálgast svæðið af forsíðu www.vedur.is.
Í tilkynningu almannavarna frá í dag segir að verið sé að gera ráðstafanir til að auka vöktun og mælingar á brennisteinsdíoxíði í byggð.
Hjá Umhverfisstofnun fengust í dag þær upplýsingar að frekari tilkynninga væri að vænta á morgun en unnið væri við að gera upplýsingarnar sem aðgengilegastar almenningu.
Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð er að störfum og samhæfir aðgerðir og upplýsingagjöf. Í dag var meðal annars haldinn stöðufundur um áhrif loftgæða með lögregluembættunum og sveitarstjórnum á Húsavík, Seyðisfirði,Eskifirði, Hvolsvelli og Selfossi. Reglulegir fundir eru með Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun um aðgerðir í vöktun og mælingu loftgæða á landsvísu.