Töluvert tjón í eldi í vélageymslu: Slökkviliðið tíu mínútur á staðinn

vopnafjordur 02052014 0004 webTöluvert tjón varð í eldsvoða í vélageymslu við bæinn Refsstað í Vopnafirði í gærkvöldi. Slökkvistarf gekk þó vel og var slökkviliðið aðeins um tíu mínútur á staðinn.

„Slökkvistarfið gekk ljómandi vel en skemman var alelda þegar við komum," segir Sölvi Kristinn Jónsson sem stýrði aðgerðum slökkviliðsins á vettvangi í gær.

Útkallið barst um klukkan hálfa átta og var slökkviliðið komið á staðinn, sem er um tíu kílómetrum fyrir innan þéttbýlið, rúmum tíu mínútum eftir að útkallið barst.

Sölvi segir slökkviliðið fljótlega hafa náð tökum á eldinum en aðstæður voru góðar, veðrið gott og nær enginn vindur. „Við fórum strax í að reyna að slökkva og það sló fljótt á. Við vorum komnir með góð tök á eldinum eftir kortér."

Reyk lagði um tíma yfir íbúðarhúsið á bænum en það kom ekki að sök og eins tókst alveg að verja gamalt fjós við hlið geymslunnar þar sem nokkrir nautgripir voru hýstir.

Á bakvið millivegg inn af vélageymslunni var trésmíðaverkstæði og geymsla. Eldurinn náði aldrei þangað en ummerki eru þar hins vegar eftir sót og reyk.

Auk tíu slökkviliðsmanna voru tíu félagar í björgunarsveitinni Vopna kallaðir til og aðstoðuðu þeir við vatnssöfnun.

Sölvi segir töluvert tjón hafa orðið í eldinum. Geymslan er ónýt og það sem í henni var, meðal annars dráttarvél, snjósleði og verkfræi.

Lögreglan á Eskifirði rannsakar eldsupptök.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar