Mikil fjölgun safngesta á Bustarfelli eftir að millidalaleiðin var tekin í notkun

BurstafellMinjasafninu að Bustarfelli í Hofsárdal í Vopnafirði hefur nú verið lokað eftir sumarvertíðina en safnið er opið ár hvert frá 10. júní til 10. september. Austurfrétt heyrði í Berghildi Fanney Hauksdóttur safnstjóra og spurði hana hvernig sumarið hafi verið og hvort aðstandendur Bustarfells hafi fundið fyrir einhverri breytingu eftir að ný vegtenging á milli Vesturárdals og Hofsárdals var tekin í notkun.

„Við fundum gífurlegar breytingar í sumar eftir að við fengum millidalaleiðina. Hún komst í gagnið um miðjan ágúst í fyrra og við urðum svo heppin að það var malbikað alveg upp að bænum, enda börðumst við mikið fyrir því að það yrði gert,“ segir Fanney.

Segja má að staða Bustarfells hafi breyst verulega eftir nýr vegur um Vopnafjarðarheiði var tekinn í notkun, en hann liggur niður Vesturárdal en ekki Hofsárdal eins og áður. Þannig varð Bustarfell ekki lengur í þjóðbraut.

„Ég var samt mjög ánægð að við duttum ekki niður í gestafjölda í fyrra þrátt fyrir að fólk þyrfti að leggja á sig alveg 40 kílómetra aukakrók til að komast til okkar. Í sumar fundum við aftur á móti fyrir mikilli fjölgun safngesta og það er búið að vera algjörlega fullt. Samgöngurnar eiga klárlega stóran þátt í því, þar sem millidalaleiðin er aðeins 8 kílómetrar og þú kemst beint að afleggjaranum að Burstafelli. Síðan spilaði veðrið reyndar líka stóran þátt í þessum aukna ferðamannastraumi á safnið og til Vopnarfjarðar yfir höfuð,“

Þrátt fyrir að við sumaropnun sé lokið eru áfram mögulegt að skoða safnið. „Þó við séum búin að skella í lás fyrir veturinn þá opnum við safnið með gleði fyrir hópa og eru skólahópar sérstaklega velkomnir. Það er bara að hafa samband og við opnum með bros á vör,“ segir safnstýran að lokum.

Mynd: vopnafjardarhreppur.is

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.