Áfangastaðurinn Austurland tekur á sig mynd: Heimamaðurinn er algert lykilatriði í þessu verkefni

Frá vinnustofunniÞriggja ára sameiginlegri vinnu ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og samfélagsins við að skilgreina Austurland sem áfangastað var ýtt úr vör með dagsfundi á Hótel Hildibrand í Neskaupstað miðvikudaginn 24. september s.l.

Vinnuna leiðir sérfræðingur í svæðis- og áfangastaðahönnun, í samvinnu við Austurbrú og Ferðamálasamtök Austurlands. Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem slík áfangahönnun nær yfir heilan landshluta.

Fundurinn var vel sóttur og komu þátttakendur víða að. Markmiðið er að Austurland standi upp úr sem áfangastaður fyrir ferðamenn og ákjósanlegur staður til búsetu. Aðstandendur verkefnisins vona að með sameiginlegri stefnu í mótun svæðisins, samræmdum aðferðum og leiðbeiningum verði því markmiði náð, en hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu telja að slíkan grunn hafi skort hingað til. Ferðamálasamtök Austurlands áttu frumkvæði að verkefninu og var leitað eftir þátttöku sem flestra; sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings.

Eftir því sem næst verður komist, er þetta í fyrsta sinn hér á landi sem samstarf næst í heilum landshluta um slíka áfangastaðahönnun. Daniel Byström, sem ráðinn hefur verið til að leiða verkefnið í samvinnu við Austurbrú, er iðnhönnuður og einn eiganda hönnunarfyrirtækisins Design Nation, sem hefur sérhæft sig í svæðis- og áfangastaðahönnun. Hann hefur m.a. unnið að svipuðum verkefnum á jaðarsvæðum í Svíþjóð og Noregi auk þess sem hann tók þátt í Evrópuverkefninu „Creative Communities“ ásamt aðilum á Austurlandi og kann því bæði vel til verka og þekkir til svæðisins.

Þessi vinna er í samræmi við áherslur sveitarfélaga á Austurlandi um að Egilsstaðaflugvöllur verði ný fluggátt inn í landið og alþjóðleg samgöngumiðstöð. Á nýafstöðnum aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi kom fram ríkur vilji til að taka þátt í nauðsynlegri stefnumörkun sem þarf að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu. Bent var á að fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu, sem og á Keflavíkurflugvöll, hefði náð þolmörkum og því brýnt að leita lausna til framtíðar. Fundurinn benti á Egilsstaðaflugvöll sem augljósa aðra fluggátt inn í landið og rökréttan hluta af þeirri heildarlausn sem nauðsynleg er í málefnum ferðaþjónustu á Íslandi.

„Þetta var flottur fundur og eitt af því sem stendur upp úr að mínu mati er að við ætlum að vinna hart að því að heimamaðurinn verði líka stór partur af þessu verkefni. Á stefnuskránni er að fara í skóla, elliheimili og fleira til að fá alla með,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú í samtali við Austurfrétt.

„Núna erum við að vinna í því að læra að tala rétt við mismunandi fólk, sumir hugsa meira um hönnunina aðrir hugsa meira um túrismann og að greiða peninga á meðan aðrir einblína á eitthvað annað. En það sem skiptir mestu máli er að Austurland verði staður sem fólk vill búa á og að þetta verði samkeppnishæfur staður fyrir fyrirtæki að vaxa og dafna á. Heimamaðurinn er því algert lykilatriði í þessu verkefni,“ segir María.

Mynd: Frá vinnustofunni.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar