Mengunarmælum á Austurlandi fjölgað
Á síðasta símafundi Almannavarna ríkisins þar sem fulltrúar almannavarna og sveitarfélaga vítt um land fá nýjustu upplýsingar um stöðu eldsumbrota í Holuhrauni og umbrota í Bárðarbungu, kom fram að fyrirhuguð uppsetning mæla víða um land til mælinga eiturefna og loftgæða.Nú eru komnir nettengdir mælar á Akureyri, Húsavík, 2 á Mývatni, í Kelduhverfi, á Vopnafirði, á Egilsstöðum og svo þrír á Reyðarfirði. Þessir mælar mæla sjálfvirkt mengunina í loftinu og senda niðurstöður inn á netið. Þeir eru hins vegar ekki auðfengnir með litlum fyrirvara.
Búið er að panta nokkurn fjölda handvirkra mæla sem koma á upp vítt um land. Af þeim þarf að lesa og verður því reynt að setja þá upp þar sem sólarhrings vakt er til staðar. Þessir mælar verða ekki nettengdir, en þétta mjög mælanetið og bæta verulega upplýsingar um loftgæði.
Hér eystra verða þeir t.d. settir upp á Bakkafirði, Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík, Djúpavogi og Höfn. Eins verða settir mælar í Fljótsdalsstöð og innst í Jökuldal.
Tvær almannavarnarnefndir eru starfandi hér eystra; önnur á suðursvæði (Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur og Djúpivogur) og hin á norðursvæði (Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjörður, Borgarfjörður eystri og Vopnafjörður). Þær hafa fundað og eru að vinna áætlun um viðbrögð.
Myndin sem fylgir fréttinni er tekin af vef Almannavarna, skoða má hana í betri upplausn hér
Það var vefur Fljótsdalshéraðs sem greindi frá þessu í morgun.