Ætla að fækka póstburðardögum í dreifbýli úr fimm í þrjá

Posturinn nytt logoÍslandspóstur hefur óskað eftir að fækka póstburðardögum á 111 bæjum í dreifbýli við sex þéttbýlisstaði á Austfjörðum úr fimm í þrjá. Í umsókn póstsins segir meðal annars kostnaður við að þjónusta heimili í sveitum megi ekki verða óeðlilega hár.

Seinni hluta júnímánaðar sendi Íslandspóstur níu aðskildar umsóknir um fækkanir dreifingadaga. Níu umsóknanna snerta Austfirði og eru 111 af þeim 126 bæjum sem áætlanir Íslandspósts snerta í fjórðungnum.

Í stuttu máli má segja að pósturinn hyggist fækka dreifingardögum í bæjum sem eru utan bæjarmarka Neskaupstaðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Flestir bæirnir tilheyra tveimur síðasttöldu sveitarfélögunum, 33 á hvorum stað.

Fæstir eru bæirnir í Reyðarfirði, tveir og er sérstaklega tiltekið að þar sæki ábúendur póstinn sinn sjálfir á pósthúsið til Reyðarfjarðar. Þar sé umsóknin ráðstöfun ef aðstæður breytist, það er íbúar óski eftir að fá póstinn heim sjálfir.

Erfitt að tryggja hagkvæma þjónustu

Í lögum um póstþjónustu segir að leyfishafi alþjónustu skuli bera út póst alla „virka daga til heimila og fyrirtækja á landinu öllu eða á viðkomandi svæði." PFS getur hins vegar veitt undanþágu ef leyfishafi rökstyður að „kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður valdi því að útburður valdi því að útburður pósts alla virka daga sé verulegum erfiðleikum bundinn á tilteknum stöðum."

Íslandspóstur færir ýmis rök fyrir fækkun dreifingardaganna. Í fyrsta lagi að 70% af almennum pósti sé sendur sem B-póstur og því sé lítill A-póstur, þ.e. forgangspóstur, á ferðinni og í öðru lagi að almennum bréfum hafi fækkað samfara tæknivæðingu og þau séu í fæstum tilfellum viðkvæm fyrir tíma.

Dreifingin er sögð kostnaðarsöm sé kostnaðinum deilt niður á hvert heimili þar sem sveitirnar séu fámennar. Bent er á hagkvæmnikröfu sem sett sé á fyrirtækið.

„Íslandspóstur á erfitt með að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu ef fyrirtækinu verður gert að halda áfram að bjóða upp á fimm daga þjónustu til staða þar sem senn er fámenni, dreifð byggð, landfræðilegir erfiðleikar og hár kostnaður. Kostnaður við að þjónusta heimili í sveitum má ekki verða óeðlilega hár enda mun það einungis leiða til kostnaðarhækkana fyrir aðra notendur póstþjónustunnar."

Bent er á að verið sé að samræma þjónustuna við Vestfirði, Barðaströnd og fleiri staði á Vestfjörðum þar sem póstur er borinn út þrjá daga vikunnar. „Því er það í raun mikið ósamræmi á þjónustu að bjóða upp á fimm daga þjónustu þar sem sambærilegar aðstæður eru." Að endingu er minnst á með minni akstri landpósta minnki mengun frá starfsemi póstsins.

Breiðdælingar bóka mótmæli

Í umsókninni er gert ráð fyrir að dreifingardögunum verði fækkað 1. október. Málið er hins vegar til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) sem óskað hefur eftir umsögnum hagsmunaaðila sem hafa frest til 3. október til að skila inn athugasemdum.

Í fundargerð Breiðdalshrepps frá í síðustu viku er bókuð mótmæli við áformunum og er óskað liðsinnis stjórna Sambands íslenskra sveitarfélaga, sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Byggðastofnunar til að beita „öllum ráðum" til að skerðingin komi ekki til framkvæmdar.

Þær upplýsingar fengust hjá Íslandspósti í morgun að þar sem málið væri í ferli hjá PFS verði engar breytingar gerðar fyrr en samþykki stofnunarinnar liggur fyrir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar