Trúnaðarmaður: Starfsfólkið er hrætt

runar gunnarsson brimbergTrúnaðarmaður starfsmanna hjá Brimbergi á Seyðisfirði segir starfsmenn uggandi um framtíð sína í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hafi annars staðar á landinu. Tækifæri felist hins vegar í því ef staðið verður við fyrirheit um áframhaldandi útgerð og vinnslu á staðnum.

„Andrúmsloftið var þungt. Það var ekki mikið spurt en fólkið er hrætt," segir Rúnar Gunnarsson, trúnaðarmaður starfsmanna hjá fiskvinnslufyrirtækinu Brimbergi á Seyðisfirði.

Starfsmönnum var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á útgerðinni Gullbergi og Brimbergi á starfsmannafundi sem hófst klukkan tíu í morgun og stóð í um klukkustund.

„Í ljósi þess sem gerst hefur annars staðar á landinu verður fólk óttaslegið þegar svona staða kemur upp því það veit ekki hvar það stendur."

Rúnar segir þó að framkvæmdastjórar Síldarvinnslunnar og Gullbergs, sem töluðu á fundinum, hafi fullvissað starfsfólk um að réttindi þess haldist þegar það færist á milli fyrirtækja.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins en úrskurðar þess má vænta eftir 6-8 mánuði. Engar eða litlar breytingar verða á þeim tíma.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar um kaupin segir að áfram verði gert út frá Seyðisfirði og lögð áhersla á að tryggja framleiðslustörf í sjávarútvegi í byggðarlaginu.

Rúnar segir tækifæri felast í því fyrir Seyðfirðinga ef staðið verði við þau fyrirheit. „Þeir segjast ætla að vera áfram með togaraútgerð en það er þetta stóra ef. Ef eitthvað gengur ekki eftir tvö ár þá verður staðan kannski önnur.

Þeir lofuðu engu en sögðu báðir að ætlunin væri að halda áfram útgerð á staðnum. Gangi það eftir geta falist í því tækifæri."

Við höfum ferjuna, mögulega tengingu ef við fáum göng og erum með vinnsluhús sem er sérhæft í ferskri vöru. Það gæti falist möguleiki í því fyrir Síldarvinnsluna að nýta það áfram sem sérhæft vinnsluhús.

En þetta veltur allt á að þeir standi við að halda áfram útgerð og vinnslu á Seyðisfirði. Ég sé tækifæri ef það verður gert."

Aðrir starfsmenn útgerðar og fiskvinnslunnar sem Austurfrétt ræddi við á Seyðisfirði í morgun skiptust í svipaðar fylkingar. Á meðan sumir sögðust kvíða framtíðinni voru aðrir sem sáu tækifæri í eigu Síldarvinnslunnar.

Á milli 60-70 manns starfa samanlagt hjá Brimbergi og Gullbergi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar