Adolf Guðmundsson: Ekki auðvelt að standa í þessum sporum

adolf gudmundsson okt14Framkvæmdastjóri Gullbergs á Seyðisfirði segir það ekki auðvelda aðstöðu að tilkynna um að félagið hafi verið selt til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hann merkir kvíða meðal starfsmanna en hluthafar hafi lagt á það áherslu að staðið yrði vörður um starfsemi á staðnum þótt félagið yrði selt. Hann telur að félaginu sé vel borgið í höndum nýrra eigenda.

„Þetta fyrirtæki er 55 ára gamalt og það er ekki auðvelt að standa í þessum sporum eins og á fundunum í morgun, bæði með bæjarstjórn og starfsmönnum, að tilkynna þeim um sölu á félaginu því það hefur verið burðarás í samfélaginu með togaranum.

Það er því ekkert skrýtið að það renni á menn kvíði um hvað framtíðin ber í skauti sér en eins og skilyrðin eru sett inn í söluna tel ég að starfsmönnum, bæði togarans og frystihússins, sé vel borgið í höndum Síldarvinnslunnar," segir Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gullbergs.

Gullberg gerir út togarann Gullver en við hann starfa 25 manns um borð og á skrifstofum í landi auk fjögurra löndunarmanna. Síldarvinnslan kaupir einnig eignir og rekstur fiskvinnslunnar Brimbergs en hjá henni starfa 36 manns, þó ekki allir í fullu starfi.

Gengið var frá viðskiptunum síðasta fimmtudag en kvittur um viðræður hefur verið á kreiki um viðræðurnar, þótt hann færi lágt. Orðrómurinn fór að berast út af alvöru seinni partinn í gær og eftir kvöldmat heyrðu starfsmenn af því að þeir væru boðaðir á mikilvægan fund sem haldinn var klukkan tíu í morgun. Tíðindin komu þeim mörgum á óvart.

„Fundurinn fór mjög vel fram en það er engin launung að það var kvíði sem kom fram og mönnum var brugðið því þetta hefur ekkert farið út. Það er alveg eðlilegt þegar mönnum er tilkynnt um að verið sé að selja fyrirtæki sem búið er að vera þetta lengi.

Ég held samt að þær skýringar sem veittar voru af mér og forstjóra Síldarvinnslunnar hafi sefað þann kvíða að einhverju leiti. Það vakna samt alltaf efasemdir hjá mönnum þegar svona gerist."

Ákveðið í maí að selja

Aðdragandinn er hins vegar mun lengri. „Það var á hluthafafundi í maí sem meirihluti hluthafa í Gullbergi tók ákvörðun um að þeir vildu leita leiða til að selja hlutaféð í sínu félagi. Mér var falið að finna hugsanlega kaupendur og ég mat að það væri góður kostur fyrir okkur að leita til Síldarvinnslunnar um kaup á hlutafé Gullbergs.

Hluthafarnir settu það fram á fundinum að þeir vildu reyna að treysta að fyrirtækið yrði á staðnum, áfram yrði gert héðan út og þau störf sem tengdust sjávarútvegi yrðu treyst í sessi eins og kostur væri. Það var mitt mat að Síldarvinnslan myndi gera það vel ef hún hefði áhuga.

Hluthafar í Gullbergi eru fjórtán talsins. Í raun er þar um að ræða tvær fjölskyldur, afkomendur skipstjóranna tveggja sem komu útgerðinni á koppinn.

Samkvæmt ársreikningi Gullbergs eru systurnar María Vigdís, Hrönn og Theódóra Ólafsdætur stærstar með 16,67% eign hver, eða samanlagt 50% hlutafjár í félaginu. Fjórir einstaklingar eiga 6,67%, einn á 4,44%, aðrir fjórir 4,17% og loks eru tveir hluthafar með 1,11%. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Adolf segir hluthafana hafa mismunandi ástæður fyrir sölunni. „Þeir eru fjórtán, hluturinn er kominn í þriðju kynslóð og margir hluthafanna ekki búsettir hér. Þá hefur umræðan um kvótakerfið, veiðigjöldin og neikvæð umræða um sjávarútveginn haft áhrif."

Sögur um viðræðurnar voru hins vegar á sveimi því fyrir tæpum tveimur vikum bar DV þær undir Adolf sem neitaði þeim.

„Þegar það viðtal átti sér stað voru jú viðræður í gangi en ég gat ekki upplýst um þær og því var þetta svar með þessum hætti. Ég hefði verið að brjóta trúnað gagnvart viðsemjendum og öðrum ef ég hefði svarað með öðrum hætti því þetta var trúnaðarmál. Ef ég hefði gefið einhvern ádrátt um að viðræður væru í gangi þá veit ég ekki hvernig umfjöllunin hefði orðið og það verið óheppilegt fyrir stöðu mála á þeim tíma."

Alltaf breytingar með nýjum mönnum

Samkvæmt nýjum lista Fiskistofu er Gullberg í 29. sæti yfir stærstu útgerðir landsins með 0,67% af heildarafla landsins. Síldarvinnslan er þar hins vegar í þriðja sæti með um tífalt meiri heimildir.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Búist er við að bíða þurfi í 6-8 mánuði eftir úrskurði þess og á þeim tíma er ekki búist við teljandi breytingum á útgerðinni á Seyðisfirði.

„Það verða alltaf breytingar með nýjum mönnum," sagði Adolf en ítrekaði að menn myndu halda að sér höndum á meðan Samkeppniseftirlitið færi yfir málið enda ganga kaupin til baka ef þau hljóta ekki blessun eftirlitsins.

Árið 2012 keypti Síldarvinnslan útgerðina Berg/Huginn í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjabær höfðaði mál út af kaupunum, krafðist forkaupsréttar og á það féllst héraðsdómur Reykjavíkur. Síldarvinnslan áfrýjaði dóminum til hæstaréttar sem er með málið til meðferðar.

Í samtali við Austurfrétt sagði bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar að sveitarfélagið ætlaði ekki í slík málaferli enda væru málin allt annars eðlis. Adolf segir að bæjarstjórn hafi verið gert viðvart um mögulegar breytingar.

„Hluti bæjarstjórnar vissi af þessum viðræðum. Aðilum þar inni var tjáð um þær í trúnaði til að geta fylgst með. Sem lögfræðingur tel ég að bæjarfélagið eigi ekki forkaupsrétt að hlutafé. Þessi málarekstur í Vestmannaeyjum hefur engin áhrif hér enda er það mat mitt að krafa Vestmannaeyjabæjar sé ekki réttmæt."

Hættir sem formaður LÍÚ

Þá var í morgun gefið út að Adolf muni hætta sem formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Hann tilkynnti ákvörðunina á stjórnarfundi í gær.

Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi til eins árs í senn. Adolf hefur verið formaður frá árinu 2008. Hann lætur af störfum eftir aðalfundinn sem haldinn verður í lok október.

Í tilkynningu frá LÍU þakkar framkvæmdastjóri sambandsins Adolf fyrir vel unnin störf fyrir hönd félagsmanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar