Austurbrú: Meira hefur farið úrskeiðis en menn reiknuðu með

austurbru 30092014 0068 webFyrrum fulltrúi sveitarstjórnarmála hjá Austurbrú telur að ekki sé nóg gert til að aðgreina starf Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrúar í nýju skipuriti stofnunarinnar. Ánægja virðist með tillögur um breytt skipulag stofnunarinnar sem samþykktar voru mótatkvæðalaust á framhaldsaðalfundi í síðustu viku.

„SSA er gagnslaust apparat ef það er bara viðhengi. Það er erfitt að skilja hvert menn eru að fara," sagði Ólafur Áki Ragnarsson, sem áður fór með málefni SSA innan Austurbrúar en tók nýverið við starfi sveitarstjóra á Vopnafirði, á fundinum.

Aðalfundi var frestað í maí og þriggja manna starfsháttanefnd falið að greina stöðu stofnunarinnar og vinna tillögur um úrbætur. Meðal stærstu breytinganna eru skarpari skil milli SSA og Austurbrúar sem tveggja sjálfstæðra aðila en Austurbrú sinni daglegri umsýslu samkvæmt þjónustusamningi.

Almenn ánægja virtist á fjölmennum fundinum með vinnu nefndarinnar og var henni meðal annars þakkað fyrir að hafa varið einu besta sumri í manna minnum inni við á fundum.

Ólafur Áki fór lítillega yfir vandræði stofnunarinnar og sagði að „meira hefði farið úrskeiðis en menn reiknuðu með" og þar væri ekki allt komið fram. Á meðan sumir hefðu talið óheppilegt að halda sviðsstjórum sem fylgdu stofnunum sem komu inn í Austurbrú var Ólafur Áki á öðru máli.

„Austurbrú væri rjúkandi rúst ef sviðin hefðu ekki verið. Sviðsstjórarnir kunnu að vinna og létu ekki koma sér úr jafnvægi þótt allt væri í háalofti innan framkvæmdastjórnarinnar.

Það er í lagi að gera mistök en þegar menn gera þau oft þarf að stoppa við. Mistökin hafa kostað peninga sem við eigum ekki því Austurbrú er fjármögnuð af opinberu fé."

Lært bæði af því góða og slæma

Fráfarandi stjórnarmenn Austurbrúar brugðust við orðum Ólafs Áka. Arnbjörg Sveinsdóttir kvaðst axla sína ábyrgð og þakkaði starfsfólki fyrir að hafa þolað fyrstu tvö árin.

„Þetta er búið að vera mikið ferðalag og við lært bæði af hinu góða og því slæma. Ég hef smá áhyggjur af SSA en við getum farið í nýja vinnu ef þetta gengur ekki," sagði hún og bætti við að áfram þyrfti að vinna með dreifsetningu stofnunarinnar.

Stefán Bogi Sveinsson minnti á að menn hefðu „ekki komið úr himnaríki" en staða stofnanna sem runnu inn í Austurbrú var um margt erfið.

„Það var ekki togstreita milli starfsmanna en tog frá þeim sem stóðu að baki gömlu stofnunum að tryggja hagsmuni sína. Menn voru fastir í gömlu hjólförunum þótt þeir væru komnir með nýjan vagn."

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, hét áframhaldandi stuðningi við Austurbrú. „Við höldum áfram og klárum þetta."

Hann kallaði einnig eftir meiri samvinnu við atvinnulífið og að sveitarfélögin nýttu Austurbrú sem samstarfsvettvang fyrir verkefni sem þau væru sammála um og nýttust fjórðungnum öllum.

Björn Hafþór Guðmundsson, sem sat í starfsháttanefndinni, sagði fráfarandi stjórn „ekki vera öfundsverða af þeim verkefnum sem á hennar borði hafa lent."

Hún hefði lyft grettistaki þrátt fyrir að hafa lent í mótbyr. Hann væri þó að hluta til henni sjálfri að kenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar