Tekjur af hreindýrum duga ekki fyrir rannsóknum Náttúrustofu Austurlands
Heildartekjur eftirlitsaðila og landeigenda af sölu hreindýraveiðileyfa á síðasta ári voru rúmar 133 milljónir króna. Kostnaður Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnunar af rannsóknum er áþekkur en Náttúrustofan þarf að afla sértekna til að mæta kostnaðinum.Þetta kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttir, þingmanns Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi, sem lagt var fram á Alþingi í gær.
Þar kemur fram að heildartekjurnar af sölu leyfa hafi verið rúmar 133 milljónir króna í fyrra. Tekið er fram að tekjur vegna skila á leyfum, meðal annars þar sem veiðimenn hafi ekki staðist skotpróf, hafi hækkað „umtalsvert" á milli áranna 2012 og 13. Auk þess hafi færst í aukana að leyfum sé skilað.
Stærstur hluti teknanna fór til landeigenda og ábúenda, alls 106,8 milljónir sem skiptist á milli 962 aðila. Meðaltalið var 111 þúsund, hæsta greiðslan rúmar 1,2 milljónir en sú lægsta 82 þúsund. Sami viðtakandi kann að vera tvítalinn fái hann arð af fleiri en einni jörð eða ef ein landareign skiptist milli margra.
Af þessu fóru tæpar 80 milljónir til einstaklinga en 26,7 milljónir til sveitarfélaga, ríkis og lögaðila. Ekki er hægt að greina í sundur hvaða lögaðilar séu í eigu opinberra aðila.
Í svarinu kemur einnig fram að kostnaður Umhverfisstofnunar við stjórn og eftirlit með veiðunum hafi verið 19,2 milljónir en kostnaður Náttúrustofu Austurlands við vöktun og rannsóknir 19,8 milljónir.
Umhverfisstofnun fær hins vegar 20,3 milljónir af sölu leyfanna en Náttúrustofan 8,5.
Heildarkostnaður Náttúrustofunnar undanfarin fimm ár af vöktun og rannsóknum hefur numið 99,3 milljónum króna. Tekjur af sölu leyfa hafa verið 28,5 milljónir og aðrar tekjur tæpar 58 milljónir, samtals 86,5 milljónir.
Stærstur hluti viðbótateknanna hefur komið frá Landsvirkjun en styrkur þaðan hefur lækkað úr 12 milljónum árið 2009 í fimm miljónir árin 2012 og 2013. Fjárveiting frá fjárlaganefnd Alþingis upp á 6,4 milljónir króna var afnumin árið 2012.
Uppsafnaður halli þessara fimm ára nemur því 12,8 milljónum króna en hann hefur aðallega orðið til síðustu tvö ár. Fram kemur í svarinu að honum hafi verið mætt með öðru rekstrarfé Náttúrustofunnar.