Ætlum við að vera á hælunum í miðbæjarskipulaginu? Farið af stað í byrjun næsta árs

arni kristinsson egs okt14Hefja á vinnu við endurskoðun skipulags miðbæjarins á Egilsstöðum í byrjun næsta árs. Fulltrúi minnihlutans kallaði eftir pólitíski stefnumótun um málið á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

„Ætlum við að vera á hælunum og taka við þessu eða á að leggjast í vinnu við að endurskoða miðbæjarskipulagið?" spurðu Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna á fundinum í síðustu viku.

Fyrir fundinum lá ósk frá hönnunarteymi til að ræða miðbæjarskipulagið. „Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd við tillöguna sem lögð er fram og í sjálfu sér er jákvætt að hér séu aðilar sem hafa áhuga á að koma að vinnu við gerð skipulagsins," sagði Stefán Bogi sem hins vegar óskaði eftir svörum um stefnu meirihlutans.

„Ég veit hvað ég sagði og hvað við sögðum á B-listanum fyrir kosningar og ég veit ágætlega hvað aðrir sögðu líka. Það voru allmargir sem töluðu um að við myndum endurnýja skipulagið.

Ég auglýsi eftir stefnu um það. Hvernig ætlum við að fara að? Ætlum við að setja í gang vinnu eða taka áfram við erindum frá verkfræðistofum og áhugasömum aðilum, hlusta og kinka kolli en gera svo ekki mikið meira."

Árni Kristinsson, Héraðslista og formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar, minnti Stefán Boga á að á síðasta kjörtímabili hefði verið samþykkt að fara í endurskoðun á deiliskipulaginu.

Hann sagði málið hafa verið rætt lauslega í nefndinni, án bókana en vinnan væri að fara í gang.

„Ég þori ekki að lofa henni fyrir áramót en ég held að það væri þarft verk að taka stöðuna með hönnuðinum sem vann að verkinu í byrjun næsta árs og hvernig hann sér það fyrir sér."

Til þess þarf að gera ráð fyrir fjármunum í vinnuna í fjárhagsáætlun. Þá staðfesti Árni að nokkrar fyrirspurnir um málið hefðu borist nefndinni um að hleypa heimaaðilum að vinnunni.

Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs af Á-lista, sagði brýnt að endurskoða miðbæjarskipulagið.

„Það er full stórkarlalegt til að við getum framfylgt því. Ég er ekki að boða hér hugmyndir um kollsteypur eða byltingarhugmyndir en það er mjög brýnt að aðlaga það umhverfinu eins og það er í dag."

Hann sagði þá aðila sem störfuðu í miðbænum í dag og ætluðu að byggja þar upp þjónustu hefðu kallað eftir skipulagsvinnunni og að innan meirihlutans hefði verið rætt um að koma vinnunni af stað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar